Sigmundur Davíð skrifar langa grein í Moggann um Klaustursmálið og eftirleik þess. Ekki síst afskipti eða afkomu Steingríms J. þingforseta.
„Viðhorf Steingríms til mín er vel þekkt. Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi,“ segir meðal annars í grein Sigmundar Davíðs.
„Margir höfðu efasemdir um að Steingrímur J. Sigfússon væri heppilegur til að gegna slíku hlutverki. Nú kýs hann að renna stoðum undir þær efasemdir með afgerandi og sögulegum hætti,“ skrifar formaður Miðflokksins.
„Viðhorf Steingríms til mín er vel þekkt. Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi. Þó blasir við að ekkert af því sem ég sagði í einkasamtali sem tekið var upp með ólögmætum hætti jafnast á við fjölmargt sem þingforsetinn sjálfur hefur sagt og gert opinberlega að yfirlögðu ráði.“
Aðrir eru verri
Sigmundur Davíð hefur verið, og er, óspar á að nefna að meðal þingmanna tíðkist umræða, jafnvel verri, en sú sem viðhöfð var á Klausturbarnum.
„Varla er það vilji þingsins að setja þau fordæmi sem þingforsetinn boðar með framgöngu sinni. Eigi einkasamtal nokkurra þingmanna erindi til siðanefndar hlýtur að þurfa að vísa ótal málum til nefndarinnar, þar með talið málum sem varða þingforsetann.
„Það mætti til dæmis nefna fjölmörg dæmi um hluti sem aðrir þingmenn, þar með talið Steingrímur J. Sigfússon, hafa sagt um mig opinberlega sem eiga mun frekar erindi til siðanefndar en nokkuð sem ég sagði í hinum ólögmætu upptökum. Eigi svo pólitík að ráða för fremur en gildissvið siðareglnanna verður málafjöldinn endalaus. Í því sambandi er rétt að minnast þess að hver sem er getur lagt til að mál gangi til siðanefndar með því að senda erindi til forsætisnefndar þingsins.“
Í sviðsljósinu
„Þingforsetinn naut sviðsljóssins,“ skrifar Sigmundur Davíð,“ …þegar hann ákvað að biðjast afsökunar á tali sex þingmanna án þess að gera grein fyrir því á hverju hann væri að biðjast afsökunar hjá hverjum um sig. Betur hefði farið á að hann byrjaði á að biðjast afsökunar á því sem hann hafði sjálfur stöðu og tilefni til.“
Og svo þetta: „Þingforsetinn hefði getað byrjað á að biðjast afsökunar á orðfæri sínu undanfarna áratugi, á því að hafa lagt hendur á ráðherra í þingsal og reyna svo að koma sama manni í fangelsi með pólitískum réttarhöldum, á því að afhenda erlendum hrægammasjóðum íslensku bankana á sama tíma og þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín, á því að hafa reynt að láta íslenskan almenning taka á sig skuldir fallinna einkabanka í andstöðu við lög, á því að nýta ekki þau tækifæri sem gáfust til að endurreisa íslenskt efnahagslíf en státa sig í staðinn af hrósi erlendra fjármálastofnana. Verði þingforsetinn kominn á skrið getur hann svo haldið áfram og beðist afsökunar á því sem hann hefur sagt og gert í gleðskap undanfarin ár, meðal annars sem ráðherra.“