Greinar

Segir Sólveigu Önnu vera Eflingu til skammar

By Miðjan

September 26, 2020

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, er allt annað en sátt við framgöngu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar.

Bjarnheiður skrifar:

„Þó aldrei sé það góð hugmynd að „fóðra tröllin“ eða gefa þeim málflutningi vægi, sem helst á heima í ruslafötunni, þá get ég ekki orða bundist.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifaði í gær ótrúlega grein á visir.is – reyndar ekki án fordæma og svo sem ekki óvænt. Greinina kallar hún „Forsendur vindhanans“.

Þar ræðst hún með heift að Samtökum atvinnulífsins, ferðaþjónustunni og einstökum persónum, sem hún rakkar niður eins og henni einni er lagið.

Hún kallar framkvæmdastjóra SA „vindhana“ og sakar hann um að ganga á bak orða sinna, um óheiðarleika og drambsemi og dregur forstjóra Icelandair niður í svaðið í leiðinni. Kallar þá „lukkuprinsa SA-Icelandairklíkunnar“.

Samtök atvinnulífsins eru samkvæmt Sólveigu Önnu lömuð eftir yfirtöku „stórfyrirtækja úr ferðaþjónustu“ og stunda klækjabrögð, óheilindi og tækifærismennsku.

Allt þetta vegna „kreppu í ferðaþjónustu“, eins og Sólveig Anna kýs að kalla stærstu kreppu sem mælst hefur.

Málflutningur af þessu tagi er algjörlega óboðlegur, auðvitað algjörlega úr lausu lofti gripinn, langt fyrir neðan virðingarmörk manneskju í stöðu Sólveigar Önnu og Eflingu til skammar. Ekki er þessi málflutningur heldur beint til þess fallinn að stuðla að friði á vinnumarkaði eða ýta undir heilbrigð samskipti fólks.

Sólveigu Önnu og hennar stuðningsfólki til upplýsingar, þá eru SA lýðræðisleg samtök allra atvinnugreina í landinu. Þar stjórna engir einstakir prinsar eða prinsessur.  Allar eiga þessar atvinnugreinar fulltrúa í stjórn og framkvæmdastjórn Samtakanna, sem mun á endanum skera úr um hvort að kjarasamningum verði sagt upp. Þessar manneskjur, bæði konur og karlar, eiga sæti í þessum stjórnum fyrir hönd sinna fyrirtækja. Venjulegt fólk eins og ég og þú.  Fyrirtækin eru alls konar, bæði lítil og stór. Þetta fólk rekur allt fyrirtæki og hefur því nokkuð góða innsýn í það hvernig verðmæti verða til og að „kreppan í ferðaþjónustunni“ hefur og mun hafa áhrif langt út fyrir þá atvinnugrein. Það þarf ekki annað en að lesa fyrirsagnir vefmiðla til að átta sig á því. En auðvitað er miklu betra að stinga hausnum í sandinn, eins og verkalýðshreyfingin hefur kosið að gera og halda að allt geti gengið sinn vanagang, þó að 300 milljarða vanti inn í hagkerfið. Enginn forsendubrestur á þeim bænum.“