Forysta og þingflokkur eru að fremja pólitískt harakiri.
„Hjarta Sjálfstæðisflokksins sló í takt við hjarta þjóðarinnar þar til fyrir áratug þegar flokkurinn beygði sig í duftið fyrir samfóistum og samþykkti daður þeirra við kommissara í Brussel fyrir setu í ríkisstjórn á dauðadeild. Þá hóf ég að sækja fundi í Valhöll. Grasrót flokksins stöðvaði vitleysuna. Svo bilaði Sjálfstæðisflokkurinn á lokametrum Icesave og hneigði sig fyrir Jóhönnu og Steingrími. Í áratug hefur skítalyktina af samfóistum og búrókrötum lagt um ganga Valhallar. Ekki er hlustað á áhyggjur þjóðarinnar né 91% landsfundarfulltrúa sem sögðu nei takk.“
Þetta er niðurlag langrar greinar Halls Hallssonar, blaðamanns og sagnfræðings, sem birt er í Mogganum í dag. Þó ekki alveg. Á eftir því kom þetta:
„Hjarta Sjálfstæðisflokksins slær hvorki í takt við þjóð né flokksmenn. Sjálfstæðisflokkurinn stýrir ekki lengur þjóðarskútunni. Sjálfstæðisflokkurinn er leiksoppur samfóista og brusselskra kómizara. Forysta og þingflokkur eru að fremja pólitískt harakiri. Þetta endar illa; afar afar afar illa fyrir flokk og þjóð nema forystan hlusti á fólkið sitt og taki nýjan kúrs.“
Grein Halls er fyrst og síðast um baráttuna gegn þriðja orkupakkanum. Hallur segir framar í greininni, það er um hlutverk Sjálfstæðisflokksins, að hans mati:
„Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður um íslenskt fullveldi og varðaði leiðina til sjálfstæðis. Sjálfstæðisflokkurinn varðaði leið frelsis með lýðræðisþjóðum gegn helsi kommúnista. Sjálfstæðismenn stöðvuðu vitleysuna þegar vinstrimenn ætluðu að sparka Varnarliðinu úr landi. Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þjóðina í landhelgisstríðunum gegn Bretum og stóð órofa vakt um fiskimiðin gegn ásælni Brussel. Sjálfstæðisflokkurinn kom Íslandi í A+ flokk og það voru sjálfstæðismenn sem með neyðarlögum leiddu björgun þjóðar í hruninu.“