Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar fína grein í Moggann í dag. Þar undrar hún sig á afstöðu Samtaka atvinnulífsins til launaþjófnaðar og efast um að afstaðan sé flestum atvinnurekendum í hag.
Sólveig Anna segir þetta, sem dæmi í langri grein sinni:
„Það er árangur af langri baráttu verkafólks að flestir íslenskir atvinnurekendur greiða laun og virða réttindi í samræmi við kjarasamninga. Flestir þeirra þröngva ekki starfsfólki í ósamþykkt leiguhúsnæði og kúga svo út úr því stórar fjárhæðir. Flestir þeirra sparka ekki fólki úr vinnu fyrir að standa í kjaradeilum. Flestir þeirra kunna að meta þann stöðugleika sem langir kjarasamninga veita og hafa uppsögn þeirra ekki í flimtingum.
Reynsla Eflingar er að flestir atvinnurekendur treysta sér til að fara eftir settum lögum og gerðum kjarasamningum, jafnvel þótt þeir kunni að vera ósammála verkalýðshreyfingunni um margt og myndu gjarnan vilja hafa kjarasamninga og lög um vinnumarkað með öðru sniði.
Sú spurning hlýtur að vakna hvort varnir Samtaka atvinnulífsins fyrir hvers kyns brotastarfsemi og samningsrofum séu hagur atvinnurekenda og hvort þessi afstaða samtakanna endurspegli vilja atvinnurekenda.
Eins og staðan er í dag leggst kostnaðurinn af brotastarfsemi og lögbrotum óheiðarlegra atvinnurekenda beint eða óbeint á alla atvinnurekendur. Starfsmannaleigur sem ástunda mansal og nauðungarvinnu koma óorði á heilu atvinnugreinarnar. Launakostnaður launaþjófa er á endanum iðulega greiddur úr Ábyrgðarsjóði launa, sem allir atvinnurekendur greiða í. Ófriðarbrölt einstakra stórfyrirtækja gagnvart endurnýjun kjarasamninga og lagaramma vinnumarkaðarins ógnar á endanum öllum atvinnurekendum.
Atvinnurekendur almennt, sér í lagi þeir sem eru færir um að fara eftir reglum eins og aðrir samfélagsþegar, hafa ekki hag af því að heildarsamtök þeirra tali fyrir brotastarfsemi og samningsrofum. Það er allra hagur að uppræta þá meinsemd. Það er á endanum ráðgáta hvers vegna Samtök atvinnulífsins berjast um á hæl og hnakka gegn því.“