- Advertisement -

Segir Samfylkingu vera með bundið fyrir augun – vill húsnæðiskostnað úr vísitölu

Verðtrygging:

Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar.

„Verðtrygging er mannanna verk, ekki náttúruleg þótt hún virðist haga sér þannig. Þegar henni var komið á hér á landi var um neyðarástand að ræða. Það átti að tryggja sparifé landsmanna, lánsfé og laun. Vextir voru ekki frjálsir og vandinn óx. En núna erum við á öðrum stað og á öðrum tíma. Verið er að gera því skóna að verðbólguskotið núna sé stjórnvöldum að kenna. Það heyrist talað um óstjórn og ráðaleysi. Samfylkingin rýkur í fjölmiðla með bundið fyrir augun án þess að líta til þess sem er að gerast í löndunum í kringum okkur, en kallar samt eftir aukningu í ríkisútgjöldum,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki á Alþingi.

„Nei, verðtrygging er ekki óklífanlegt fjall. Við getum nefnilega haft áhrif á gang mála. Það er nauðsynlegt að endurmeta forsendur og útreikninga verðbólgu og verðtryggingar. Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar. Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstóll verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndunum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs. Sá darraðardans sem hefur átt sér stað á húsnæðismarkaði landsmanna hefur því miður skapað verðbólgu og hún vex. Nágrannalönd okkar nota aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu og þar sem húsnæðismarkaðurinn er lítill og auðhreyfður verðum við í alvöru að skoða hvort ekki sé kominn tími til að horfa fram hjá honum,“ sagði hún.

„Nú þegar vorar verðum við að líta til sólar. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur leitt af sér. Mótvægisaðgerðir eru komnir á þriðja tug. Nú þurfum við að horfa enn frekar til fjölskyldna í landinu. Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölunni,“ sagði Halla Signý.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: