Hin opinberu félög haga sér oft eins og ríki í ríkinu.
„Ríkið þarf ekki að reka fjölmiðil, það þarf ekki að reka póstþjónustu, flugstöð þarf ekki að vera í ríkiseigu og ríkið þarf ekki að reka fjármálafyrirtæki. Ríkið ætti frekar að einbeita sér að því að forgangsraða í þá grunnþjónustu sem við höfum komið okkur saman um að ríkið sinni. Ekkert af þessu hefur þó með almannaþjónustu að gera.“
Ritari Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir skrifaði grein sem er í Mogganum í dag. Hér birtast valdir kaflar úr greininni.
„Hin opinberu félög haga sér oft eins og ríki í ríkinu og kæra sig lítið um það að stjórnmálamenn hafi skoðanir á því hvernig þau haga sér. Staðreyndin er þó sú að stjórnmálamenn eru kjörnir fulltrúar almennings, hins raunverulega eiganda félaganna. Ríkisfyrirtækin eiga sig ekki sjálf og eru þar síður í eigu stjórnenda þeirra.“
„Það vekur oft athygli – og furðu – hversu áköf ríkisfyrirtækin eru í samkeppni við einkaaðila og á það sérstaklega við hin opinberu hlutafélög (ohf.) Isavia rekur bílastæði við flugstöð og reynir að hrekja í burt samkeppni, Íslandspóstur undirbýður sendibílastöðvar til að keyra út vörur fyrir IKEA og RÚV þurrkar upp auglýsingamarkaðinn fyrir stóra viðburði. Þessi opinberu hlutafélög gefa ekkert eftir og ganga jafnvel harðar fram í samkeppninni en nokkurt einkafyrirtæki myndi gera. Ekkert af þessu hefur þó með almannaþjónustu að gera. Það er ekki nauðsynlegt fyrir ríkið að selja nærföt og sælgæti í flugstöðinni eða sinna bílastæðum við hana, svo tekin séu dæmi.“