Segir rútubílstjóra vera ofborgaða
Rútufyrirtækin rekin með stórtapi og ekki síst vegna „ofurlauna“ rútubílstjóra. Hámarkslaun rútubílstjóra eru rétt rúmar 300 þúsund krónur.
Halldór Benjamín skrifar í Moggann í dag: „Félagsfundur Eflingar og hópferðabílstjóra í vikunni var merkilegur fyrir margra hluta sakir. Þar kom fram að hugur væri í hópnum fyrir komandi kjaraviðræður og rétta þyrfti hlut hópferðabílstjóra. Undir það tók formaður Eflingar.“
Halldór Benjamín býsnast yfir laununum. Hann segir að með allri yfirvinnu og öllu sem hægt er að týna til fái rútubílstjórar um 75 prósent af meðalheildarlaunum starfsmanna á almennum vinnumarkaði. „Yfirvinnugreiðslur voru 25% af heildarlaunum þeirra sem svarar til að þeir hafi fengið greiddar átta yfirvinnustundir á viku, en yfirvinnugreiðslur til þeirra hafa dregist saman undanfarin ár.“
Og svo er talið í og grátkórinn í Borgartúni kyrjar einum rómi: „Vandinn er að þrjú stærstu rútufyrirtæki landsins skiluðu mörg hundruð milljóna króna tapi á árinu 2017 og árið 2018 verður sennilega lakara rekstrarár. Væntingar til næsta árs eru í besta falli hóflegar.
Spyr sá sem ekki skilur: hvað á að sækja hvert?“