Fréttir

Segir Pírata vilja þjóðríkið feigt

By Miðjan

March 01, 2023

Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og fyrrum alþingismaður, skrifar grein í Fréttablað dagsins. Við birtum hér drjúgan hluta hennar:

Þjóðríki án öruggra landamæra rís ekki undir nafni. Tómt mál er að tala um fullveldi þjóðarinnar þegar stjórnvöld standa frammi fyrir opnum landamærum og hafa ekkert um það að segja hverjir koma hingað til að setjast hér að.

Í þessu ljósi birtist með málþófi pírata og kröfu um galopin landamæri eins konar árás á þjóðríki Íslendinga sem þeir leiddu með stuðningi Samfylkingar og Viðreisnar. Þau vilja þjóðríkið feigt. Málþófið snerist að nafninu til um mannréttindi en áherslan var á góðmennsku og mannúð þeirra sjálfra eins og fleirum sýnist tamt. Opin landamæri sem þau kalla eftir hafa fyrirsjáanlegar afleiðingar: Við verðum eins og hver önnur Belgía og tölum belgísku.

Einstakir þingmenn Samfylkingar hafa haldið uppi háværum málflutningi í sama dúr og píratar og sýnast ekkert vilja kannast við danska systurf lokkinn og virða vettergis baráttu hans í þágu danskra gilda.

Viðreisn er ekki langt undan og víkur sér undan að axla ábyrgð gagnvart þeim aðstæðum sem við búum við. Ákafasti talsmaður f lokksins í málaf lokknum hlaut nýlega flokkslega upphefð í viðurkenningarskyni fyrir málflutning sem vart verður kenndur við þekkingu eða hófstillingu.

Þegar þjóðríkið liggur undir árás þriggja f lokka á Alþingi, ef bein atlaga og meðvirkni reiknast saman, blasir við að æðsta forysta ríkisstjórnarinnar getur ekki setið hjá. Æðstu forystumenn verða að axla þá ábyrgð sem fylgir því að hafa forystu fyrir ríkisstjórn. Greiða fyrir nauðsynlegum lagabreytingum umfram þær sem nú standa fyrir dyrum til að laga íslenska löggjöf að því sem gerist og gengur í nágrannalöndunum. Frumskilyrði er að fella brott löglausa ákvörðun úrskurðarnefndar útlendingamála um að meðhöndla efnahagsferðalanga, t.d. frá Venesúela, sem flóttamenn sem þeir eru ekki.

Æðsta skylda stjórnvalda er að standa vörð um þjóðríkið og fullveldi þjóðarinnar. Undan þeirri skyldu fá forystumenn ekki vikist. Þeir standa frammi fyrir að rísa undir ábyrgð þegar alvarlegt hættuástand ríkir á landamærunum og hart er sótt af hálfu aðila sem vilja íslenskt þjóðríki feigt. Tíminn til aðgerða er núna.