Davíð Oddssyni er misboðið. Píratar hafa gengið þannig fram að Davíð fyrrverandi er ekki skemmt.
„Það hefur verið heldur ömurlegt að fylgjast með umræðu á Alþingi síðustu daga, ekki síst málatilbúnaði pírata sem sökkva æ dýpra í sýndarmennskufenið. Á þriðjudag fór fram sérstök umræða að þeirra frumkvæði undir yfirskriftinni: „Traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.“ Þær umbúðir voru þó aðeins yfirskin því að tilgangur umræðunnar var bersýnilega að stilla forsætisráðherra, sem var til svara, upp og reyna að fá fram útilokunaryfirlýsingu,“ skrifar ritstjórinn.
Ekki er nema von að Davíð skilji ekki allt og alls ekki Pírata sem hafa áhyggjur af spillingunni hér á landi. Og hversu nátengdur Sjálfstæðisflokkurinn er henni.
„Útilokunarmenningin er það sem heillar pírata mest um þessar mundir og markmiðið er að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá stjórnarþátttöku. Hingað til hafa flokkar reynt að komast áfram á eigin verðleikum og hafa í leiðinni bent á galla annarra, en píratar hafa enga stefnu. Þeirra markmið um þessar mundir er að ræða spillingu, reyna að finna hana hvort sem við á eða ekki, og klína svo tilbúningnum á einn stjórnmálaflokk,“ skrifar Davíð og veit ekki sitt rjúkandi ráð.
„Píratar afhjúpuðu sig illilega í þessari sérstöku umræðu og staðfestu að þeir standa ekki fyrir neitt, ætla öðrum allt illt og vilja nota uppnám og spillingartal til að fleyta sér aftur inn á þing í haust, langt umfram verðleika.
Í fyrradag bættu þeir svo um betur með því að senda erindi til ÖSE með ósk um kosningaeftirlit í haust. Átyllan er meint spilling hér á landi.
Það þarf enginn að undrast að traust á stjórnmálum sé lítið hér á landi þegar slíkir menn veljast á þing.“