Hjörleifur Hallgríms á Akureyri hefur verið ein dyggasti stuðningsmaður Miðflokksins. Nú bregður svo við að Hjörleifur fer ófögrum orðum um flokkinn og hann ver Birgi Þórarinsson og segir hann hafa yfirgefið ósómann þegar hann sagði sig úr Miðflokknum, nýkjörinn þingmaður í hans nafni.
„Upphafið er Klausturmálið, sem er enn verið að núa mönnum um nasir, þar sem Birgi réttilega ofbauð og lét það í ljós. Var honum aldrei fyrirgefið það, sem svo kom illilega niður á honum og sérstaklega frá áramótum er menn úr flokknum fundu verulega að framboði hans og lögðu ekki stein heldur steina í götu hans, sem svo hélt Miðflokknum á floti í kosningunum,“ segir í nýrri Moggagrein Hjörleifs.
Hjörleifur sakar Gunnar Braga um eitthvað sem ekki er skýrt nánar en svona:
„Framlag Gunnars Braga nokkrum dögum fyrir kosningar var kornið sem fyllti mælinn en Birgir tók samt þá ákvörðun að taka slaginn sigurviss og vann auðvitað en yfirgaf síðan ósómann.“
Og greinin endar svona:
„Það er fullyrt að kveða hefði mátt Klausturmálið niður strax ef rétt hefði verið staðið að málum, burtséð frá innleggi Báru. Birgi eru valin þvílík stóryrði og skítkastið hefur verið í hámarki, jafnvel frá fólki sem hefur ekki hugmynd um alla málavöxtu og sakar hann um svik við kjósendur. Ég hef ekki enn skilið muninn á svikum við kjósendur hvort sem viðkomandi segir sig úr sínum flokki tveimur vikum, mánuði eða tveimur árum eftir kosningar, þótt vissulega sé þetta umtalaða atvik óvenjulegt.“