Hér gerir meirihlutinn enn á ný aðför að fjölskyldubílnum.
„Miðflokkurinn er í fararbroddi umhverfis- og auðlindamála en borgarfulltrúi flokksins leggst alfarið gegn þessum tillögum,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir á borgarstjórnarfundi, þegar hún dsgði nei við tillögu meirihlutans.
Tillagan er svohljóðandi: „Reykjavíkurborg skorar á ráðherra að fella burt takmarkanir á hámarksfjölda umhverfisvænna leigubíla á höfuðborgarsvæðinu. 2. Reykjavíkurborg lýsir því yfir að þeir aðilar sem hyggjast bjóða upp á leigu á reiðhjólum og léttum rafknúnum farartækjum séu velkomnir til Reykjavíkur. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að fylgjast með þróun mála og gera, eftir þörfum, tillögur að reglum fyrir slíka starfsemi til að tryggja gæði og stýringu. 3. Unnið skal að því á vettvangi skipulags- og samgönguráðs að uppfæra reglur um bílastæðafríðindi visthæfra deilibíla til að styðja við notkun þeirra.“
„Miðflokkurinn er í fararbroddi umhverfis- og auðlindamála en borgarfulltrúi flokksins leggst alfarið gegn þessum tillögum. Hér gerir meirihlutinn enn á ný aðför að fjölskyldubílnum. Sú stefna er meira í ætt við þráhyggju og forræðishyggju og á ekkert skylt við deilisamgöngur. Fram kemur í markmiðum tillagnanna að þær eigi að ýta undir ýmsa fjölbreytta ferðamáta, sem allir eigi það sameiginlegt að vera einstaklingmiðaðir en um leið auðvelda fólki að komast leiðar sinnar öðruvísi en á eigin bíl. Þetta er lélegur grímubúningur andstöðunnar við fjölskyldubílinn. Fólk verður að hafa frelsi til að nota þann samgöngumáta sem það vill og það er afturför til síðustu aldar að setja svo íþyngjandi reglur fyrir borgarana. Borgarfulltrúa Miðflokksins er það til efs að ferða- og atvinnufrelsi megi skerða á þann hátt sem hér er lagt til. Markaðurinn leysir þessar tillögur sem hér liggja fyrir sjálfur án valdboðs meirihlutans í Reykjavík og er kominn langleiðina með það,“ bókaði Vigdís.