Leiðari Fréttablaðsins: Lýðskrumarar stýra verkalýðshreyfingunni
Segir í leiðara Fréttablaðsins. Þar er forystan sögð vera byltingarsinnuð og með takmarkað umboð.
Fréttablaðið eykur enn forystuna í baráttunni gegn verkafólk. Sem fyrr skrifar Hörður Ægisson leiðarann á föstudegi. Hann gefur hvergi eftir í baráttu sinni gegn þeim lægst hafa launin og heggur enn í nýja forystu launafólks.
Hér er sýnishorn af skrifum Harðar og Fréttablaðsins.
„Verkalýðshreyfingunni er nú stýrt af lýðskrumurum og fólki sem aðhyllist marxískar kennisetningar um viðvarandi stéttastríð milli atvinnurekenda og launafólks. Sameiginlega hafa þau vakið falsvonir á meðal almennings um að hægt sé að ná fram stórfelldum launahækkunum án þess að nokkuð muni gefa eftir. Í krafti valdastöðu sinnar sem leiðtogar helstu stéttarfélaga landsins hefur málflutningur þeirra, sem allajafna ætti að afgreiða sem jaðarskoðun sem engum bæri að taka alvarlega, fengið mun meira vægi í almennri umræðu en þekkist á hinum Norðurlöndunum. Það er þess vegna ekki aðeins mikilvægt heldur nauðsynlegt að mun fleiri – stjórnendur fyrirtækja, stjórnmálamenn og núverandi og fyrrverandi áhrifamenn í verkalýðshreyfingunni – stígi fram og bendi á ruglið. Með sama framhaldi, þar sem sjálfskipuðum byltingarsinnum með takmarkað umboð á bak við sig, hálfgert eyland, er leyft að einoka umræðuna án mótspyrnu, stefnir að öðrum kosti í óefni.“