Segir lýðskrumara raska jafnvæginu
Hannes Hólmsteinn varar við óhóflegum launakröfum. „Launahækkanir taka mið af hækkunum hjá ráðherrum og þingmönnum er það ávísun á óstöðuleika,“ svarar Jón Þór Ólafsson.
„Launahækkanir hafa verið svo miklar síðustu árin, að launakostnaður er að sliga sum fyrirtæki. Nú er kominn tími til að fara hóflega í sakirnar. Ætlum við enn að láta lýðskrumara raska jafnvæginu í atvinnulífinu, eins og hefur gerst svo oft áður?“
Þetta er mat Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessor.
Úlfar Hauksson stjórnmálafræðingur segir: „Hárrétt Hannes Hólmsteinn Gissurarson… stjórnmálamenn og stjórnendur hafa farið offari í launakröfum og -hækkunum og hófu höfrungahlaupið og ættu að skammast sín fyrir að ógna stöðugleikanum.“
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata segir: „Rétt og ef almennar launahækkanir taka mið af hækkunum hjá ráðherrum og þingmönnum er það ávísun á óstöðuleika.“
Og svo spyr Jón Þór, án þess að fá svara: „Ættu ráðamenn Hannes að fylgja fordæmi Davíðs Oddssonar 1992 og leiðrétta laun ráðamanna til lækkunar til að sýna gott fordæmi á vinnumarkaði?“
Lítum til baka og skoðum þegar ríkissstjórn Davíðs Oddssonar setti bráðabirgðalög á ákvörðun Kjaradóms um verulega hækkun launa helstu ráðamanna.
Í Mogganum þann dag, það er 4. júlí 1992.
„Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði að þar sem Kjaradómur taldi ekki vera laga- eða efnisskilyrði fyr ir því að verða við tilmælum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun úrskurðarins, hefði ríkisstjórnin ákveðið að breyta þeim skilyrðum með bráðabirgðalögum. „Nú er efnis- og lagagrundvöllur fyrir hendi og þess vegna er hægt að kveða upp úrskurði sem eru meira í takt við það sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu,“ sagði forsætisráðherra.
Davíð sagði að viðbrögð aðila á vinnumarkaði við úrskurði Kjaradóms og yfirlýsingar um að gildandi kjarasamningum yrði sagt upp stæði úrskurðurinn óbreyttur, hefði skapað brýna ástæðu fyrir setningu bráðabirgðalaganna. Ekki hefði verið fært að kalla saman þing þar sem þeir sem hefðu sett fram óskir um það hefðu haft mismunandi leiðir í huga við lausn þessa máls
Sumir voru neikvæðir:
„Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands íslands, segir að með setningu bráðabirgðalaganna sé ríkisstjórnin að bregðast við þrýstingi frá launþegum en sá þrýstingur hafi hvað sterkast komið fram á útifundinum á fimmtudag. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, segir að bráðabirgðalögin séu undarleg ráðstöfun og alls ekki í samræmi við kröfuna um að Alþingi yrði kallað saman. Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að frekar hefði átt að kalla þing saman. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðunbandalagsins, segir þessa niðurstöðu undarlega og mótsagnakennda og að hún leysi engan veginn þann vanda sem við er að glíma,“ segir í Moggafrétt þann dag.