- Advertisement -

Segir lögmann ASÍ styðja ofbeldismann

Tryggvi Marteinsson er sá sem hótaði að skaða Sólveigu Önnu Jónsdóttur.

Rétt í þessu sendi ég póstinn hér að neðan á Magnús M. Norðdahl lögfræðing ASÍ. Ég vona að þið gefið ykkur tíma til að lesa hann. Það er satt best að segja ótrúlegt að upplifa þá miklu gerendameðvirkni sem ríkir innan stærstu hreyfingar vinnandi fólks á Íslandi. Hún sést með skýrum hætti í framferði lögfræðings ASÍ og einnig í því hversu stór hópur úr framvarðarsveit íslensku verkalýðshreyfingarinnar er tilbúinn til að sýna manninum sem rekinn var í gær frá Eflingu mikla og innilega hluttekningu á Facebook-vegg hans, þar sem öll geta séð, líka þær fjölmörgu konur sem tilheyra félögum innan ASÍ.

– – – – –

Þú gætir haft áhuga á þessum

Magnús M. Norðdahl

Lögfræðingur ASÍ og sviðsstjóri sviðs kjarasamninga og þjónustu

Alþýðusamband Íslands

Afrit á Drífu Snædal, forseta ASÍ og Höllu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra ASÍ

Sæll Magnús.

Í gær varð kunnugt að tilteknum starfsmanni hjá Eflingu – stéttarfélagi var sagt upp störfum. Hefur verið sagt frá þessu í fréttum nú í morgun.

Umræddur starfsmaður er sá sem hótaði mér ofbeldisverkum á heimili mínu. Hótuninni fylgdi nákvæm útlistun á því hvernig hann hefði áður gert hótanir gegn meintum óvinum sínum að veruleika og útskýringar á því hvers vegna hann teldi að hann myndi aðeins hljóta skilorðsbundinn dóm yrði hann dæmdur vegna þess sem hann hugðist gera mér.

Eins og ég hef greint frá opinberlega þá liggur fyrir skriflegur vitnisburður frá starfsmanninum sem hann orðaði hótanir sínar við. Þessi vitnisburður kom fram bæði í samtölum við aðra starfsmenn, m.a. trúnaðarmann vinnustaðarins, og í skriflegum samskiptum sem liggja hjá mannauðsstjóra skrifstofu Eflingar.

Ég féll frá ósk um aðgerðir vegna málsins af hálfu stjórnenda á skrifstofu Eflingar en kaus þess í stað að tilkynna um hótunina til lögreglu, eins og ég hef líka sagt frá opinberlega.

Skömmu síðar fór af stað atburðarás sem leiddi til þess að ég sagði af mér sem formaður Eflingar.

Ég átti ekki þátt í þeirri ákvörðun núverandi stjórnenda að víkja starfsmanninum úr starfi og vissi ekki um hana fyrr en eftir á. Ég hef því ekki áreiðanlega vitneskju um ástæður uppsagnar, en samhengið er þó augljóst.

Í gærkvöldi birti starfsmaðurinn stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann segir frá uppsögninni. Hann uppnefnir af þessu tilefni stjórnendur Eflingar “kommúnista”, segist hafa „goldið þess“ að vera „karlmaður og Íslendingur“, og notar tækifærið í ummælum neðan við færsluna til að spyrja hvort Efling sé að breytast í “pólska útgáfu af stéttarfélagi.” Uppfærsla starfsmannsins er opinber og öllum Facebook-notendum sýnileg.

Þú sást þig knúinn til þess að bæta ummælum við færsluna og eru þau svohljóðandi: „Ömurlegar fréttir kæri félagi – á löngum ferli mínum í störfum fyrir þetta stóra stéttarfélag hefur við mig aldrei orði verið á þig hallað – þvert á móti.“

Þú ert lögfræðingur Alþýðusambands Íslands og nýtur sem slíkur mikillar virðingarstöðu. Horft er til orða þinna ekki aðeins sem leiðsagnar eða álits, heldur jafnvel sem einhvers konar úrskurðar, enda er það svo að Alþýðusambandinu er treyst til að skera úr um ýmis mál sem varða aðildarfélögin og kemur þá iðulega til þinna kasta.

Ég geri ekki og hef aldrei gert neina kröfu um afskipti þín eða Alþýðusambandsins af þessu máli. Ég hef heldur enga kröfu gert um að þú fellir dóm gegn umræddum starfsmanni eða liðsinnir mér sem þolanda ofbeldis á skrifstofu aðildarfélags ASÍ á nokkurn hátt. Hins vegar get ég ekki hjá því komist að lýsa undrun minni og raunar áfalli að verða vitni að því að þú sjáir þig knúinn að stíga fram með þessum hætti.

Með orðum þínum lýsir þú frammi fyrir almenningi samúð og stuðningi við geranda í ofbeldismáli, og kastar um leið opinberlega rýrð á frásögn mína sem þolanda hótunar af hálfu viðkomandi. Þetta gerir þú jafnvel þú hljótir að vera upplýstur um inntak þess sem ég hef greint frá um málið, þ.e.a.s. hversu einbeittum vilja til ofbeldisverknaðar var lýst, að vitnisburður liggi fyrir og að málið hafi verið tilkynnt verið til lögreglu.

Á síðustu árum hefur átt sér stað talsverð umræða og vitundarvakning um hlutverk verkalýðsfélaga í málum sem snúa að kynbundnu ofbeldi og áreiti. Sem dæmi um þessa vitundarvakningu þá framkvæmdi Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins rannsókn á fjölda, úrræðum og afdrifum mála sem varða kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi, en það var miðstjórn ASÍ ásamt stjórn BSRB sem fól stofnuninni þetta í kjölfar annarrar bylgju MeToo.

Ég tel að með framgöngu þinni hafir þú gert Alþýðusambandið vanhæft til aðkomu að málum sem snerta kynbundið ofbeldi og áreiti. Stofnun sem felur karli með þín viðhorf og hugmyndir um hvað telst ásættanleg opinber framganga í slíkum málum stöðu æðsta lögfræðivalds hefur tapað trúverðugleika sínum. Enginn þolandi í kynbundnu ofbeldis- eða áreitnismáli getur treyst því að mál þeirra fái faglega eða hlutlausa meðferð af hálfu ASÍ meðan þú gegnir þar þeirri stöðu sem þú gerir.

Ég er ekki lengur í stöðu formanns Eflingar. Ég skrifa þér því þessar línur sem almennur félagi í einu af aðildarfélögum Alþýðusambandsins og sem þolandi ofbeldis af hálfu starfsmanns á skrifstofu sama félags.

Sólveig Anna Jónsdóttir

félagi í Eflingu og fyrrverandi formaður Eflingar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: