- Advertisement -

Segir laun Ármanns vera há og góð

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins spyr hvort embættismenn eigi að stjórna bænum, frekar en kjörnir fulltrúar.

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, og sem skipar þriðja sæti listans í kosningunum á laugardaginn, skrifar á Facebook vegna launa bæjarstjórans, Ármanns Kr. Ólafssonar, sem og annarra bæjarfulltrúa.

„Er það almenn skoðun fólks að bæjarfulltrúar verði launalausir og sinni þessu mikilvæga starfi eingöngu sem áhugamáli,“ spyr hún í upphafi greinar sinnar.

Og svo: „Er betra að það séu bara þeir efnameiri sem geti stundað þetta starf þar sem að aðrir myndu ekki hafa getuna í að gefa tímann sinn líkt og þeir ríku myndu geta? Verða bæjarfélögin betur rekin þannig, göturnar betur sópaðar, munu göngu og hjólreiðastígar lagast?“

Auðvitað eru mörg svör við þessum spurningum bæjarfulltrúans. Kjósendur verða varla í vandræðum með það.

Karen Elísabet hefur meira til málsins að leggja: „Er algerlega ómögulegt að ætla að ábyrgð bæjarstjórna sé þónokkur þegar kemur að risastórum málaflokkum eins og skóla-leikskóla-velferðarmálum og nú síðast málefnum fatlaðra. Allt eru þetta þjónustuflokkar sem eru á herðum bæjarfélaga. Mér finnst slæmt að talað sé um sjálftöku fólks sem raunverulega leggur fram vinnu við að sinna þessu vel. Líklega er það skoðun margra að bæjarfélögum ætti bara að vera stýrt af æviráðnum embættismönnum en ekki kjörnum fulltrúum bæjarbúa sem kosnir eru á fjögurra ára fresti,“ skrifar hún.

Þá kemur hún að launum Ármanns bæjarstjóra: „Ég get algerlega tekið undir að laun bæjarstjóra í Kópavogi og annarsstaðar eru há og góð. Við skulum þá líka ekki gleyma þeirri vinnu sem býr að baki slíku starfi,“ skrifar hún.

Karen Elísabet rökstyður launahækkanirnar: „Hækkunin kemur í kjölfar kjararáðshækkana sem var 45%. Henni var ekki unað í Kópavogi heldur var miðað við launavísitölu frá síðustu kjararáðshækkun. Niðurstaðan var tæp 30%. Ég er bæjarfulltrúi í Kópavogi og sinni þvi starfi af mikilli alúð og samviskusemi. Ég er með 340þ fyrir það starf og tek aðrar greiðslur eftir því hvaða nefndarstörf ég tek að mér, sumsé aukna ábyrgð. Er ég sjálftökumanneskja?“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: