Ole Anton Bieltved skrifar grein í Mogga dagsins. Þar skvettir hann köldu vatni á Kristrúnu Frostadóttur, nýkjörinn formann Samfylkingarinnar. Greinina kallar hann: „Tíu síður af blaðri“. Greinina byrjar hann svona:
„Samfylkingin er nú búin að halda landsfund og kjósa sér forystu. Fyrir undirrituðum er ágætur bragur á þessum nýja mannskap, studdur af þeim gamla, nema ef vera skyldi á nýjum formanni. Hún er eflaust væn og velviljug ung kona en fyrir mér einkennist framganga hennar og málflutningur af kokhreysti meira en þekkingu og reynslu.
Útprentuð stefnuræða hennar telur tíu síður. Fyrir undirrituðum lítið bitastætt og án þess að vilja vera dónalegur verð ég að kalla efni þessara tíu síðna blablabla; billegar klisjur.
Formaðurinn nýi er full af sjálfumgleði og sjálfsöryggi, sumir telja styrk í því, kann töluvert fyrir sér í hagfræði, sem meira er þó sniðin að stórum og margbrotnum hagkerfum en því íslenska, en hún er mest reynslulaus og þar með kunnáttulítil ekki bara um íslensk þjóðfélagsmál heldur líka alþjóðastjórnmál.
Undarleg var dagskrá fundarins í því að fyrst skyldi formaður kosinn og næsta dag skyldi hann gera grein fyrir stefnu sinni. Sumir hefðu kallað þetta að hafa endaskipti á hlutunum. Skyldi nýr formaður hafa fengið sama fylgi, um 95%, ef þessu hefði verið snúið við?
Nýr formaður talar mikið um velferðarkerfið, „endurreisn þess“. Þetta er þó frekar innihaldslítil stefnumörkun þar sem allir flokkar landsins vilja og stefna á það sama; að styrkja og bæta velferð landsmanna.“
Ole Anton hlífir Kristrúnu ekkert. Síðar í greininni segir:
„Aðrar leiðir til að bæta og styrkja velferðarkerfið eru aukin skattheimta, auknar lántökur ríkissjóðs, lækkun útgjalda, aukin verðmætasköpun og/eða nýjar tekjur.
Aukin skatttaka þjóðfélags sem búið er að berja til og frá í skatttöku af mörgum stjórnmálaflokkum og ríkisstjórnum og verið hefur í mótun áratugum saman er langsótt leið og erfið.
Auknar lántökur eru heldur ekki góð leið, þær þýða í reynd að núverandi kynslóð vilji auka sína velferð með lántökum, sem lenda svo á börnum og barnabörnum.
Ekki mikil reisn yfir slíkri hugmynd, og akkúrat hér má hæla núverandi fjármálaráðherra fyrir það hvernig hann hefur fært niður skuldir ríkissjóðs á undanförnum árum og tryggt Íslendingum sterkari fjárhagsstöðu en flestar vestrænar þjóðir njóta.
Þessi sterka fjárhagsstaða ríkissjóðs gerði okkur kleift að fjármagna heimsfaraldurinn án mikilla vandkvæða. Þessi lágskuldastefna tryggir líka að vaxtakostnaður ríkissjóðs lækkar og má nota það fé sem þar losnar einmitt til að bæta velferð.
Samfylkingin:
Þessa leið vill nýr formaður þó lítt sjá. Gerir hún þá í leiðinni lítið úr afstöðu sinna flokksmanna, en í skoðanakönnun sl. sumar voru 94% þeirra samfylkingarmanna sem afstöðu tóku með ESB-aðild.
Lækkun útgjalda ríkissjóðs er erfið leið og torsótt. Þar rekast menn á marga veggi. En ein leið til lækkunar útgjalda ríkissjóðs, fyrirtækja landsins og almennings er þó greiðfær ef menn sameinast um hana:
Með inngöngu í ESB og upptöku evru myndu vextir af lánum og skuldum stórlækka, kostnaður allur þar sem lánsfjármagni er beitt lækka auk þess sem upptaka evru myndi laða erlenda banka og smásölukeðjur til landsins, sem myndu keyra niður bankakostnað og smásöluverð. Ekki síst myndu fjárfestar koma til landsins með stóraukið fjármagn, atvinnulífi og framsókn þess, nýsköpun, verðmætasköpun í landinu, til góðs.
Þessa leið vill nýr formaður þó lítt sjá. Gerir hún þá í leiðinni lítið úr afstöðu sinna flokksmanna, en í skoðanakönnun sl. sumar voru 94% þeirra samfylkingarmanna sem afstöðu tóku með ESB-aðild.
Varðandi nýjar tekjur hef ég bent á þá leið sem Norðmenn fara, þar sem þeir munu frá 1. janúar 2023 taka leigu, afnota- eða auðlindagjald, fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum norsku þjóðarinnar, en haf, land og loft, sem ekki er í séreign, verður þar nú skilgreint sem sameign þjóðarinnar.
Ekki virðist formaðurinn hafa fylgst mikið með þessu, hvað þá tileinkað sér þá stefnu, heldur fara meira undan í flæmingi þegar auðlindamálin ber á góma.“
Hér er fast skotið. Framtíðin er óráðin. Sjáum hvað setur, er gagnrýni Ole Antons réttmæt?