Fréttir

Segir kaupmátt lægstu launa vera 30% hærri en 2015

By Miðjan

December 30, 2018

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, fullyrti í Vikulokunum á rás eitt í gærmorgun að kaupmáttur lægstu launa sé nú 30 prósent hærri en hann var 2015. „Laun hafa hækkað gríðarlega mikið á þessum samningstíma sem nú er. Kaupmáttur launþega er 25 prósent hærri en hann var 2015. Þetta er staðreynd. Kaupmáttur lægstu launa er 30 prósent hærri en hann var 2015,“ sagði hún. Hún sagði launahækkanir síðustu kjarasamninga hafa verið innistæðulausa og að mörg fyrirtæki hafi ekki getað staðið undir þeim. Nefndi hún að komið hefði til fjöldauppsagna hjá mörgum fyrirtækjum og sem dæmi hafi prentsmiðjan Oddi hætt bókaprentun. „Það er ekkert sjálfgefið að störf séu hér á landi. Þegar við missum frá okkur samkeppnishæfnina þá erum við að missa störf. Guðrún er sem fyrr segir formaður Samtaka iðnaðarins og að auki er hún í stjórn Samtaka atvinnulífsins. Sjónarmið hennar gefa ekki góðar vonir um að samningar takist á næstunni.