- Advertisement -

Segir Jón dómsmálaráðherra ekki bera lágmarksvirðingu fyrir hlutverki sínu

Beiting rafvopna getur verið banvæn.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir Pírati hóf umræðu um embættisverk Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra þegar hann ákvað að lögreglan verði framvegis vopnuð rafbyssum. Málið var rætt á Alþingi í gær. Arndís Anna sagði til að mynda:

„Í ljósi þess að lögreglan á Íslandi ber almennt ekki vopn, þar með talið rafbyssur, verður ekki annað séð en að um mikilvæga áherslubreytingu sé að ræða. Hefur hæstvirtur forsætisráðherra raunar staðfest að það sé afstaða hennar einnig. Komið hefur fram að eins og staðan er í dag skorti lögregluna þjálfun í meðferð og beitingu vopnanna sem og í því að meta aðstæður með viðhlítandi hætti svo að sem minnstur skaði verði af. Beiting rafvopna getur verið banvæn og sýnir reynsla annarra landa að það eru einna helst þeir hópar sem jaðarsettastir eru sem lenda í misnotkun á þeim. Þessi ákvörðun skiptir því miklu máli varðandi öryggi fólksins í landinu og traust þess gagnvart lögreglu, þá einkum þeirra sem standa höllum fæti. Auk þess, líkt og ítrekað hefur verið bent á síðustu ár, er eftirliti með störfum lögreglu stórlega ábótavant hér á landi og einu úrbæturnar sem sitjandi ríkisstjórn hefur lagt til eru þær að efla nefnd sem sjálf hefur lýst hlutverki sínu sem nokkurs konar póstflokkunarstöð fyrir ábendingar almennra borgara vegna starfa lögreglu.“

Næst sagði Arndís Anna:

Þú gætir haft áhuga á þessum

…verður ekki annað séð en að forsendur ákvörðunarinnar séu einfaldlega rangar.

„Í umfjöllun um málið 23. janúar sl. rökstuddi hæstvirtur dómsmálaráðherra ákvörðun sína með því að öryggi lögreglumanna væri í húfi og vísaði í að þróunin væri sú að það væri mikið meira um slys á lögreglumönnum og meira um óhöpp gagnvart þeim í líkamlegum átökum. Þessi ummæli standast hins vegar ekki skoðun samkvæmt gögnum frá Vinnueftirlitinu. Raunar virðist sem áverkum af völdum manna eða dýra fari fækkandi og fjöldi tilkynntra slysa til Vinnueftirlitsins hafi haldist stöðugur þrátt fyrir aukna fólksfjölgun. Í úttekt Vinnueftirlitsins kom jafnframt fram að þessara upplýsinga hefði ekki verið óskað af hálfu dómsmálaráðuneytisins. Það liggur því skýrt fyrir að ákvörðun hæstvirts dómsmálaráðherra var ekki eingöngu tekin í trássi við ákvæði stjórnarskrárinnar sjálfrar, án samráðs við þjóð eða þing og án samráðs við ríkisstjórnina sjálfa, heldur verður ekki annað séð en að forsendur ákvörðunarinnar séu einfaldlega rangar. Hvað þýðir það? Jú, að ákvörðun hæstvirts dómsmálaráðherra hafi ekki verið byggð á faglegu mati á þörf og afleiðingum þessarar afdrifaríku breytingar á störfum lögreglu í landinu, ekki á staðreyndum heldur eingöngu á persónulegri og/eða pólitískri afstöðu hæstvirts ráðherra sjálfs. Það er ekki að sjá á þessari atvikalýsingu að hæstvirtur dómsmálaráðherra beri lágmarksvirðingu fyrir hlutverki sínu í ríkisstjórn, hvað þá samráðsskyldu gagnvart þingi og þjóð.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: