Segir Hörð handbendi vinstri manna
Rekstrarhagfræðingurinn Magnús Ægir Magnússon, sem situr í stjórn Hafnarfjarðarhafnar leggur fram sértaka samsæriskenningu í Moggagrein í dag. Hann segir þar Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, vera handbendi vinstri manna og að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi fjarstýrt Herði í aðför gegn álverinu í Straumsvík.
„Lengstum var gott samkomulag milli Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík um fyrirkomulag sölu og kaupa á raforku. Báðir aðilar skildu að það væri hagur beggja að vel gengi hjá báðum. Svo virðist sem að í kringum árið 2010 hafi þarna orðið breyting á. Komin var til valda í landinu „hrein vinstristjórn“ en vinstrimenn, sumir hverjir allavega, hafa alla tíð verið áberandi í andstöðu sinni við byggingu og rekstur álversins og fundið því allt til foráttu. Nýr forstjóri var ráðinn til Landsvirkjunar og nokkuð víst er að dagskipun hafi komið til Landsvirkjunar frá ríkisstjórninni um að nú skyldi brjóta upp raforkusamninga stóriðjufyrirtækjanna og láta þá finna til tevatnsins. Enginn velkist í vafa um það að Landsvirkjun getur hækkað sitt raforkuverð að vild og þarf hvorki að spyrja kóng né prest um það. En það hafa aldrei þótt mikil búvísindi að slátra mjólkurkúnni,“ segir í grein Magnúsar Ægis.
Magnús er sannfærður um aðför gegn álverinu.
„Ég held að ekkert fyrirtæki á Íslandi, fyrr né síðar, hafi verið lagt í þvílíkt og annað eins einelti og álverið í Straumsvík og hefur fyrirtækið þurft að sæta miklum og hatrömmum árásum alla tíð. Misviturt fólk hefur gargað og hrópað á torgum um að loka eigi fyrirtækinu nú þegar, engu skeytandi um afleiðingar þess fyrir starfsmenn fyrirtækisins, land og þjóð. Nú þegar fyrirtækið á í erfiðleikum er þetta fólk fljótt til að hefja upp sinn gamla útslitna og útjaskaða söng; lokum, lokum, lokum strax í dag,“ skrifar Magnús Ægir Magnusson rekstrarhagfræðingur í hafnarstjórn Hafnarfjarðar.