Þrátt fyrir dóma á öllum dómsstigum virðist fjarri að deilu þeirra Benedikts Bogasonar, forseta Hæstaréttar, og Jóns Steinar Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við réttinn sé lokið.
Benedikt hefur sagt eftir dóm Hæstaréttar að Jón Steinar sé angi af þeirri ógeðfelldu og öfgafullu umræðu sem á undanförnum árum hefur einkennt samfélagið bæði hér og víða annars staðar og fer langt út fyrir öll velsæmismörk.
Þetta er þungt högg sem forseti Hæstaréttar veitir kollega sínum. Í Mogganum í dag heldur Jón Steinar áfram og skrifar meðal annars:
„Því hefur verið hvíslað í eyra mér að Benedikt hafi ekki greitt lögmanni sínum fyrir málastappið. Lögmaðurinn hafi verið sólginn í að fá að reka þetta mál fyrir hæstaréttardómarann, þar sem í því fælist langþráð upphefð fyrir hann. Að mínum dómi er nauðsynlegt að Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar upplýsi um þetta með nákvæmri greinargerð studdri greiðslugögnum um málskostnaðinn sem hann hafði af málinu. Grunsemdir um að þessi valdamikli dómari þiggi á laun greiða frá starfandi lögmönnum í landinu eru ekki ásættanlegar. Þess vegna verður hann undanbragðalaust að gefa þessar upplýsingar.“
Þrátt fyrir að deila þeirra hafi farið fyrir Héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt ern henni sýnilega hvergi nærri lokið.