Segir enga spillingu vera á Íslandi
- segir spillingartalið hafa leitt til þess að margir telji að hér sé spilling alvarlegt vandamál þó að raunin sé sú að fáir hafi kynnst henni.
Davíð Oddsson virkar sannfærður um að hér á landi finnist ekki spilling. Hann skrifar í Moggann.
„Hér á landi finnast þeir sem eru mjög uppteknir af því að finna það út að Ísland sé gerspillt land. Fátt ef nokkuð bendir til að þetta eigi við rök að styðjast en þó er skórinn níddur af landi og þjóð í einhverjum undarlegum tilgangi, oftast þó að því er virðist til sjálfsupphafningar.“
Honum virðist brugðið og vitnar til félaga sinna í B35, Borgartúni 35: „Nýlegt dæmi um þetta kom úr óvæntri átt ef marka má athugasemd Samtaka atvinnulífsins, SA, við skýrslu starfshóps á vegum forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.“
Svo kemur játning, reyndar ekki mikil, en játning samt: „Samtök atvinnulífsins finna að því að skortur á trausti sé skýrður með vísan til meintrar spillingar sem sé ekki stutt handbærum rökum. Í skýrslunni sé vitnað til könnunar um að 70% þjóðarinnar telji spillingu mikla eða frekar mikla í stjórnkerfi og atvinnulífi, en að skýrslan þegi um það að innan við 20% segist sjálf hafa reynslu af mismunun og mun færri hafi beina reynslu af alvarlegri spillingu.“ Það hlýtur að teljast nokkuð að fimmti hver Íslendingur hafi tekið þátt í spillingu.
Samkvæmt þessu hefur spillingartalið leitt til þess að margir telji að hér sé spilling alvarlegt vandamál þó að raunin sé sú að fáir hafi kynnst henni.
Svo vitnar Davíð til frétt í Mogganum í gær: „Í frétt Morgunblaðsins í gær er sagt frá því að Ísland sé í 13. sæti á lista um spillingu í 180 ríkjum heims og að landið hafi aldrei farið niður fyrir 14. sæti. Þetta bendir ekki beinlínis til þess að spilling sé verulegt vandamál hér á landi, en það virðist vera töluvert vandamál hve sumir eru áhugasamir um að ýta undir spillingartal.“
Íslendingar svara einatt að hér sé besta vatnið, fallegustu konurnar, sterkustu karlarnir, besta lambakjötið og hér sé ekki spilling. Engin rök að baki fullyrðingunum, bara tilfinningar.