„Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins létu Davíð Þorláksson forstjóri borgarlínunnar og Jón Gunnarsson þv. dómsmálaráðherra „samræmingarnefnd“ fella út þegar samþykkta tillögu um að Ísland hæfi landamæravörslu. Hið sama gerðu þeir við tillögu um að útlendum flugfélögum yrði gert að fara að íslenskum lögum. Árlegur kostnaður við hælisleitendur nemur ekki bara uppgefnum 25 milljörðum á ári, 40-50 milljarðar er nær lagi. Ekkert hefur verið Sjálfstæðisflokknum dýrara en dekrið við ólöglega hælisleitendur til að þóknast fámennum hópi vinstrafólks sem öskrar á Austurvelli þegar aðrir eru í vinnu. Þar er komin meginskýringin á fylgishruni flokksins (sem ég hafði reyndar spáð að gefnu tilefni),“ segir í nýrri Moggagreins eftir Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmann og félaga í Sjálfsstæðisflokknum.
„Á landsfundinum sem endaði með andstöðu við herta landamæravörslu kom fram að hún hefði enga þýðingu. Þáverandi ráðherra kvað þetta niðurstöðu ráðuneytisins. Hvað vita embættismenn í dómsmálaráðuneytinu sem erlendir kollegar ekki vita? Ég hef gengið í öflun skjala skv. upplýsingalögum til að lesa mér til um rannsóknir og niðurstöðu ráðuneytisins. Sama hef ég gert varðandi flugfarþegalista sem útlend flugfélög neita að afhenda, en Skatturinn kveður það viðskiptaleyndarmál og neitar mér um gögnin!“
Einar skrifar áfram:
„En viti menn; hvorki dómsmálaráðuneytið né ríkislögreglustjóri eiga pappírssnifsi þar sem rökstudd afstaða er tekin til lokunar landamæra. Ráðuneytið hefur einfaldlega ekki skoðað kosti þess og galla með formlegum hætti, en fullyrðir samt, gagnstætt öðrum löndum, að það sé gagnslaust! Ólöglegir hælisleitendur halda því áfram að flykkjast til Íslands í boði embættismanna sem ekki gæta að starfsskyldum sínum. Þótt nokkuð hafi dregið úr halda milljarðarnir áfram að hlaðast upp. Það er t.d. bráðnauðsynlegt að neita íbúum frá Venesúela um komu til landsins nema þeir hafi vísa vegna almennrar misnotkunar þeirra á hæliskerfinu. Það má ekki bregðast við neyðarástandi, segja embættismennirnir; þeir þurfa sem sé að fara í starfsnám til Finnlands.
Embættismenn gefa alltaf sömu ráðin: „Ekki gera neitt; það gæti verið andstætt lögum og við þurfum að passa okkur til að varast hugsanlega lagaábyrgð.“ En ríkissjóði blæðir. Fyrir stjórnmálaflokk er það ekki góð ráðgjöf að fara eftir. Betra ráð er „ekki gera ekki neitt“. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fetað vandlega í fótspor danska Íhaldsflokksins eins og ég hef bent á; hann tortímdi sjálfum sér. Enn er hægt að grípa í taumana, en aðeins eru nokkrir mánuðir til stefnu.“