„Ég hef verið að velta skrifum Davíðs Oddssonar fyrir mér, hvað fyrir honum vaki. Engum dylst að honum er mikið niðri fyrir og á erfitt með að hemja skap sitt þegar svo ber undir,“ þetta skrifaði Halldór Blöndal, sem lengi vel var skjólstæðingur Davíðs Oddssonar, í grein sem birt er í Mogganum í dag.
Á valdatíma Davíðs var Halldór þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis. Halldór hefur nú áhyggjur af leiðtoganum fyrrverandi og ekki síður af Mogganum.
„Þegar ég var blaðamaður á Morgunblaðinu var það borgaralegt blað, þar sem skýr mörk voru sett milli almennra frétta og pólitískra frétta. Reykjavíkurbréf voru þannig skrifuð að farið var rétt með efnisatriði máls, þannig að lesandi þeirra vissi um hvað var að ræða og gætilega talað um einstakar persónur. Mér er mjög í minni ádrepa sem ég ungur blaðamaður fékk frá Matthíasi Johannessen og hef ekki gleymt þótt áttræður sé. Morgunblaðið talar eingöngu um það í þriðja orkupakkanum sem ekki er í honum, nefnilega sæstreng til Íslands. Á hinn bóginn lætur Morgunblaðið sig engu skipta frjálsræði í viðskiptum með rafmagn, rétt neytenda og neytendavernd. Morgunblaðið er ekki svipur hjá sjón. Það er ekki það sama og það var. En það er ekki öll von úti.“
Tilefni greinar Halldórs eru ólíkar skoðanir hans og Davíðs á orkupakkanum, máli sem skaðar Sjálfstæðisflokkinn og Moggann.