„Dylgjum um faglega umsögn borgarlögmanns er vísað á bug.“
„Það er með ólíkindum að borgarlögmaður skuli blanda sér með þessum hætti í þetta viðkvæma mál sem er að öllum líkindum alvarlegt lögbrot,“ segir í bókun Vigdísar Hauksdóttur á síðasta fundi borgarráðs.
Tilefnið er eftirmálar braggans. Vigdís segir að lagt hafi verið fram álit með; „fyrirframgefnu niðurstöðu“ og hún telur eðlilegt að hafi tölvupóstum verið eytt; „…eins og Innri endurskoðandi hefur ítrekað í minnisblaði eftir rangfærslur borgarfulltrúa meirihlutans um annað.“
Vigdís segir síðan: „Það vekur upp spurningar hvort ákveðinn starfsmaður hafi hætt störfum hjá borginni til að rof yrði í hugsanlegri rannsókn á reikningum sem skrifaðir hafa verið á braggann og útborgun þeirra. Að skýla sér á bak við ómöguleika í varðveislu „óformlegra tölvupósta“ og vísa í lög um Þjóðskjalasafn Íslands má líkja við hylmingu þar sem í skýrslu innri endurskoðanda kemur fram að engir skriflegir samningar hafi verið gerðir út af bragganum nema leigusamningurinn við HR. Æðsta stjórnsýsla Reykjavíkur sekkur dýpra og dýpra í viðleitni sinni í að réttlæta lögbrotin og óráðsíuna á Nauthólsvegi 100/Braggann.“
Þarna á hún eflaust við Hrólf Jónsson. Vigdís útilokar ekki að hann hafi hætt störfum til að flækja rannsóknina.
Fulltrúar meirihlutans höfðu sannanlega ekki gaman af:
„Dylgjum um faglega umsögn borgarlögmanns er vísað á bug og væri áheyrnarfulltrúanum nær að kynna sér hana enda ítarleg og lýsandi fyrir lagaumhverfið sem málið varðar. Starfslok tengdust löngum starfsaldri og dylgjur um annað eru út í hött og ekki svara verðar. Í báðum tilvikum styðjast dylgjurnar hvorki við rök né gögn málsins og dæma sig sjálfar.“