Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma á Siglufirði, sendir Benedikt Jóhannessyni, stofnanda Viðreisnar, kalda gusu í Mogganum í dag. Ólafur segir Benedikt beiti fyrir sig reikningskúnstum. Svo segir Ólafur:
„Benedikt bregður gjarnan yfir sig blæju frjálslyndis, víðsýni og sanngirni. En bak við grímuna er maður sem hirðir ekki um staðreyndir, beitir talnabrellum til þess að leiða upplýsta umræðu af vegi. Hann reynir að læða inn þeim ótta að útgerðarmenn séu að eignast allt Ísland. Það er líklega af ráðnum hug að hann notar alltaf orðið útgerðarmenn í stað sjávarútvegsfyrirtækja, enda er það í takt við skrumskælingu hans um að sjávarútvegur hafi að geyma örfáa einstaklinga sem maka krókinn. Það er auðvitað fjarri sanni.
Benedikt segist vera maður frjálslyndis, sanngirni og víðsýni, en er bara, þegar nánar er að gáð, ísmeygileg útgáfa af popúlista.“