Stjórnmál „Ég held að í prinsippinu hafi samtök eins og okkar ekki lagst beinlínis gegn því að einhverjar svona breytingar verði gerðar þegar það er tímabært. En að gera þetta á einverjum hálfum mánuði eða þremur vikum í október, í einu skrefi, er bara ákveðin klikkun,“ segir Benedikt S. Benediktsson, frá Samtökum verslunar- og þjónustu, í viðskiptakálfi Moggans, um vegagjöldin.
„Það er mjög skrítið til þess að hugsa að við séum stödd hérna rétt fyrir þinglok að fá svona sendingu og ég geri ráð fyrir að flestir í atvinnulífinu sem eru að skoða þetta núna séu jafnvel ekki farnir að átta sig á því hvort þeir ráði við þetta fyrir áramót, þeir eru bara að reikna áhrifin enn þá,“ segir Benedikt.
„Það sem við heyrum frá okkar geirum er að flutningskostnaður er að fara að hækka, flutningur vara út á land og kostnaður við dreifingu hér í höfuðborginni. Rekstrarkostnaður þeirra sem nota dráttarvélar mun hækka, sem og þeirra sem aka mjólkurbílum og væntanlega aðila eins og Orkubús Vestfjarða sem keyrir á dísilolíu til framleiðslu á raforku yfir harðasta tímann, þannig að þetta eru ansi víðtæk áhrif.“
„Fyrirtækin verða fyrir höggi og það má gera ráð fyrir að viðskiptavinir þeirra verði fyrir höggi, hvort sem það eru önnur fyrirtæki eins og til dæmis matvöruverslanir úti á landi, þær munu augljóslega þurfa að hækka verð til þess að mæta þessum kostnaðarhækkunum í vöruflutningi, og bara hinn almenni neytandi,“ segir Benedikt.