Gunnar Kristinn Þórðarson, formaður Karlalistans hefur sagt sér formennskunni.
„Ágætu vinir og félagar. Ég hef ákveðið að stíga til hliðar sem formaður Karlalistans. Stofnun flokksins og framboðsins hafði margþættan tilgang. Á meðal markmiða var að afhjúpa andúð stjórnmálanna og fjölmiðla á málefnum umgengnisforeldra. Nú hygg ég að almenningur allur átti sig á því að Samfylking og Vinstri grænir eru þeir flokkar sem mest hatast út í feður, börn þeirra og mannréttindi. Einnig hefur komið í ljós að DV og Stundin eru þeir fjölmiðlar sem hafa hvað mesta andúð á foreldrajafnrétti og málefnum feðra. Einnig var tilgangur framboðsins að afhjúpa hatur femínismans á málefnum feðra, -eins og femínistaskjölin sýna fram á með skýrum hætti. Það var einnig tilgangur framboðsins að taka þátt í umræðunni og kynna málefnið fyrir kjósendum og ég held að það hafi tekist vel. Helstu fjölmiðlar gerðu okkur góð skil, og nefni sérstaklega málefnalegan fréttaflutning RÚV og 365 miðla. Þriðja markmiðið var að þétta raðir umgengnisforeldra, -sem mistókst, og er því miður í samræmi við það áhugaleysi sem feður sjálfir hafa sýnt málstaðin nú um langt árabil. Ég hef unnið við þennan málaflokk í 7 ár, og hefur erfiðasti hluti starfsins verið að fá feður til að sýna samtöðu. Fylgi flokksins í kosningunum samsvarar því að rétt um 4% umgengnisforeldra í Reykjavík hafi kosið okkur. Það er vitaskuld ófullnægjandi, og gefur skýrt til kynna að ekki sé grundvöllur fyrir framboði af þessu tagi. Kosningabaráttan sýndi einnig að andúð ákveðinna hópa á málefnum umgengnisforeldra sem birtist með ógeðfelldu og rætnu persónuníði. Ef menn taka að sér að leiða slík verkefni, verða þeir að hafa sterkt bakland, sem er því miður ekki að heilsa, þrátt fyrir frábæran kjarnahóp. Áhugaleysið birtist meðal annars í því að erfitt var að manna lista og fá fólk til að kenna sig við framboðið. Þó er löngu vitað að baráttan fyrir foreldrajafnrétti er ekki fyrir viðkvæma, saman ber ofangreint. Óháð verðleikum að öðru leyti tel ég jafnframt að mistakist manni að leiða verkefni, eigi annar að taka við. Tel að það eigi við í stjórnmálum sem og á mörgum öðrum sviðum. Það er þó ekki líklegt að ég sé farinn úr umræðunni. Þegar einar dyr lokast, opnast einhver önnur. Og ef hún opnast ekki af sjálfu sér, opnar maður hana bara sjálfur. Aldrei að vita hvar maður poppar upp næst.“