Viðar Eggertsson Samfylkingu á Alþingi:
„Já, það er mörg veislan og nú erum við að halda upp á afmæli. Fyrir rétt um tíu árum, eða 22. apríl 2013, sendi formaður Sjálfstæðisflokksins eldri borgurum bréf og hvatti þá til að kjósa sig. Eldri Sjálfstæðismenn hafa árum saman veifað þessu bréfi og gremja þeirra hefur farið stigvaxandi. Nú veifa þeir þessu bréfi framan í mig og segja bálreiðir: Segðu Bjarna að ég sé hættur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn því að hann hefur svikið okkur. Þetta bréf var sent eldra fólki korteri áður en núverandi fjármálaráðherra tók sæti í ríkisstjórn sem hann hefur setið í samfellt í tíu ár, löngum sem fjármálaráðherra. Í þessu áratugsgamla bréfi segir m.a., með leyfi forseta:
„Stefna Sjálfstæðisflokksins er framtíðarstefna og til þeirra sem eldri eru því við hugum að lífskjörum þeirra. Eldri kynslóðir verðskulda að búa við öryggi og góð lífsgæði. Fái Sjálfstæðisflokkurinn umboð til að leiða næstu ríkisstjórn“ — sem hann nota bene fékk — „munum við setja eftirfarandi mál í öndvegi: Við viljum að þeir sem komnir eru á efri ár njóti afraksturs erfiðis síns. Stjórnvöld eiga að hlúa að öldruðum en ekki íþyngja þeim með ósanngjarnri skattlagningu.“
„Svo heldur loforðalistinn áfram og þar er margt sætt og óefnt en tímans vegna nefni ég þó úr loforðalistanum: Við ætlum að afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega. Við ætlum að afnema eignarskattinn, sá skattur er ekkert annað en árás á eldra fólk sem býr í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði. Við ætlum að lækka fjármagnstekjuskattinn sem kemur einna harðast niður á eldri borgurum landsins. Við ætlum að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Þar er sannarlega um réttlætismál að ræða.
Meira að segja eldri Sjálfstæðismenn eru reiðir. Hvað varð um þessi loforð? Stóð aldrei til að efna þau?“
Hér er bréfið sem Bjarni skrifaði skömmu fyrir kosningarnar 2013: