- Advertisement -

Seðlabankinn kæfir þúsundir heimila með fullri blessun ríkisstjórnarinnar

„Er enn og aftur verið að fórna heimilunum, velsæld og draumum þúsunda fyrir hagsmuni fjármálafyrirtækja? Snýst þetta eftir allt saman bara um efnahagslegan stöðugleika og velferð þeirra?“

Ásthildir Lóa Þórsdóttir.

„Er enn og aftur verið að fórna heimilunum, velsæld og draumum þúsunda fyrir hagsmuni fjármálafyrirtækja? Snýst þetta eftir allt saman bara um efnahagslegan stöðugleika og velferð þeirra?“

„Fyrir hvern er efnahagsstöðugleikinn sem alltaf er verið að stefna að? Svo mánuðum skiptir hafa ráðherrar, seðlabankastjóri og fleiri málsmetandi aðilar ítrekað sagt að stærsta hagsmunamál heimilanna sé að ná niður verðbólgu. Þó að verðbólgan sé slæm þá vil ég engu að síður mótmæla þessari framsetningu. Stærsta hagsmunamál heimilanna er húsnæðisöryggi og að hafa í sig og á,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, á Alþingi.

„Í hinni svokölluðu baráttu Seðlabankans við verðbólguna hafa þúsundir fjölskyldna verið sviptar þessum grunnþörfum. Nú er það svo að 10% verðbólga veldur því að hafi útgjöld þín verið 100.000 kr. á mánuði verða þau 110.000. Hafi þau verið 500.000 kr. verða þau 550.000. Til að bjarga okkur undan kannski 50.000 kr. auknum útgjöldum hafa álögur á heimilin verið auknar um mörg hundruð þúsund í hverjum mánuði með biluðum og óhóflegum vaxtahækkunum,“ sagði Ásthildur Lóa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Munu seint eða aldrei fyllilega ná sér eftir þær grimmilegu aðgerðir Seðlabankans.

„Hvernig í ósköpunum gengur þannig hagfræði upp? Að auki er það staðreynd að glórulausar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa snúist upp í andhverfu sína. Verðbólgan væri komin niður í 5% ef ekki væri fyrir áhrif hárra vaxta og húsnæðislið vísitölunnar. Skuldir fyrirtækja hafa aukist og afborganir þeirra þyngst vegna þessara háu vaxta þannig að þau hækka að sjálfsögðu vöruverð sem aftur eykur verðbólguna. Þessi svokallaða hagfræði er augljóslega að gera illt verra. Heimilin sem allt þetta bitnar á og eru þolendur þessa ofbeldis Seðlabankans og stjórnvalda eru komin að þolmörkum, ef ekki yfir þau. Það hlýtur að vera fyrsta markmið læknis að gera sjúklinginn ekki veikari. Með aðgerðum sínum hefur Seðlabankinn gert illt verra. Hann er að kæfa þúsundir heimila með fullri blessun ríkisstjórnarinnar. Mörg þeirra munu seint eða aldrei fyllilega ná sér eftir þær grimmilegu aðgerðir sem Seðlabankinn hefur beitt gegn þeim og hagsmunum þeirra. Á sama tíma er hins vegar partí hjá fjármálafyrirtækjunum og fleiri stórfyrirtækjum sem sýna hagnaðartölur sem áður hafa ekki sést.“

„Fyrir hvern er stöðugleikinn sem alltaf er verið að tala um? Hvað er unnið með verðstöðugleika sem kæfir þúsundir heimila? Er fjármálaráðherra tilbúinn til að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni strax áður en hann veldur meiri skaða? Eða er enn og aftur verið að fórna heimilunum, velsæld og draumum þúsunda fyrir hagsmuni fjármálafyrirtækja? Snýst þetta eftir allt saman bara um efnahagslegan stöðugleika og velferð þeirra?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: