Seðlabankinn segir að efnahagslegt umhverfi sé íslenskum fyrirtækjum almennt hagfellt.
„Þá er fjárhagsstaða fyrirtækja almennt sterk, eiginfjárhlutföll há og skuldastaða sögulega lág. Fyrirtækjum á vanskilaskrá fækkar enn líkt og verið hefur undanfarin ár þó að lítils háttar aukningu megi sjá í tveimur atvinnugreinum: ferðaþjónustu og fiskveiðum og -vinnslu.“
Og Seðlabankinn segir: „Hagnaður fyrirtækja hefur vaxið á síðustu árum en verulega hefur hægt á vextinum og vísbendingar eru um að draga muni úr hagnaði þeirra á árinu.“
Seðlabankinn sleppir fræðunum og vitnar næst í baráttuaðferð Samtaka atvinnulífsins og ber fyrir sig könnun um hug nokkurra forstjóra íslenskra fyrirtækja.
„Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins eru almennt svartsýnni nú en þeir hafa verið undanfarin ár og fleiri en áður búast við því að hagnaður verði minni í ár en í fyrra.“
Seðlabankinn bendir á að hlutabréfaverð hafi lækkað á árinu og sé það til marks um lakari væntingar aðila markaðarins um gengi skráðra fyrirtækja. „Haldist lakari afkoma í hendur við aukinn skuldavöxt má vænta þess að eiginfjárhlutföll lækki.“