Fréttir

Seðlabankinn hækkar enn stýrivexti – Upp um eina prósentu

By Ritstjórn

May 04, 2022

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um eina prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75 prósent.

„Efnahagshorfur hafa heldur versnað frá febrúarspá Seðlabankans vegna neikvæðra áhrifa innrásar Rússlands í Úkraínu. Á hinn bóginn eru vísbendingar um talsverðan þrótt innlendra umsvifa. Slakinn í þjóðarbúinu virðist horfinn og spenna tekin að myndast á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir 4,6% hagvexti í ár en að hann verði tæplega 3% á næstu tveimur árum.

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara,“ segir í tilkynningunni frá Seðlabankanum.