- Advertisement -

Seðlabankinn: Aðhaldssöm peningastefna skilar árangri

- óbreyttir stýrvextir

„Of snemmt er að segja til um efnahagsleg áhrif síðustu skrefa við losun fjármagnshafta,“ segir peningastefnunefnd Seðlabankans, þegar hún tilkynnir um óbreytta stýrivexti bankans.

„Hugsanlegt er að betra jafnvægi skapist á milli inn- og útstreymis á gjaldeyrismarkaði en skammtímahreyfingar kunna að aukast eins og sést hafa merki um síðustu daga. Seðlabankinn mun eftir sem áður draga úr skammtímagengissveiflum þegar tilefni er til.“

Lítil alþjóðleg verðbólga

„…aðhaldssöm peningastefna skapað verðbólguvæntingum kjölfestu og haldið aftur af útlánavexti og vexti eftirspurnar,“ segir einnig í tilkynningu nefndarinnar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verðbólga mældist 1,9 prósent í febrúar, áþekk því sem hún hefur verið síðastliðið hálft ár. „Að því er varðar verðbólguhorfur togast sem fyrr á tveir kraftar. Hagvöxtur hefur reynst meiri en spáð var, en á hinn bóginn er gengi krónunnar hærra. Gengishækkunin og lítil alþjóðleg verðbólga vega sem fyrr á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum og hefur bilið á milli verðþróunar innlendra þátta, einkum húsnæðiskostnaðar, og erlendra þátta aukist.“

Áfram kröftugur vöxtur

„Vísbendingar eru um áframhaldandi kröftugan vöxt það sem af er ári. Þá fjölgar störfum hratt, atvinnuleysi er lítið og atvinnuþátttaka er orðin meiri en hún var mest á þenslutímanum fyrir fjármálakreppuna. Þrátt fyrir að innflutningur erlends vinnuafls vegi á móti fer spenna í þjóðarbúinu vaxandi.“

 

Skýr merki um spennu

„Ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um spennu í þjóðarbúskapnum kalla á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Á móti kemur að heldur hefur dregið úr óvissu á vinnumarkaði.

Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hafa gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndar Seðlabankans.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: