Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, var í viðtali við Miðjuna, um efnahagsmál.
Í hluta viðtalsins var talað um muninn á erfiðleikunum 2008 og nú um viðbrögðin þá og nú.
Jón var spurður hvaða mistök voru gerð eftir hrunið 2008 sagði hann að of mikið hafi verið treyst á lausafjárstefnu, vextir hafi verið of lágir, of mikið af peningum hafi verið pumpað út í hagkerfið. „Það var nauðsynlegt 2008 þegar allt var í kaldakoli. Þá voru ódýrir peningar notaðir til að halda efnahagslífinu gangandi. Nú eru fyrirtæki um allan heim mjög skuldsett. Það er vegna þess að bankar um allan heim hafa haldið vöxtum lágum og að er mikið af peningum í gangi. Nú þegar þetta áfall kemur þá standa fyrirtækin verr en þau hefðu annars gert. Peningastefnan í heiminum síðustu tíu ár veldur núna mjög miklum vanda um nánast allan heim.“
Það er einmitt það sem Seðlabankinn er að gera. Er hann þá á rangri leið?
„Ég held að það sé ekki ráðlegt að lækka vexti og kaupa ríkisskuldabréf eins og ástandið er núna. Ég sé ekki hvernig það á að hjálpa til. Ég held að til verði vandamál af því að að gera þetta. Réttara væri að grípa til annarra ráðstafana en að lækka vexti og kaupa ríkisskuldabréf.“
Hvað á þá að gera?
„Það á að hjálpa einstaklingum í greiðsluerfiðleikum, eins og víða er gert, til dæmis með að fresta afborgunum af lánum, fresta gjaldþrotum, og breyta skuldum. Það á að fara skammtímaaðgerðir til að hjálpa því fólki sem lenda í mestum erfiðleikum og það er ekki gert með vaxtalækkunum eða með kaupum á ríkisskuldabréfum.“
Nú ber mikið á milli forystufólks í verkalýðshreyfingunni og seðlabankastjóra um hvort taka eigi verðtrygginguna úr sambandi. Seðlabankastjóri segir fólk að slappa af, hér fari verðbólgan ekki á flug.
„Ef viðsnúningurinn verður hraður, að þetta verði ekta V-laga krísa, og peningum verði dreift út í efnahagslífið, eins og verið er að gera, er hætta á verðbólgu,“ sagði Jón meðal annars í viðtalinu.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið.