Vilhjálmur Birgisson:
Gengur þetta allt út á að tryggja fjármálastöðugleika fjármálakerfisins, skítt með launafólk, heimilin, bændur og lítil og meðalstór fyrirtæki og er von að maður spyrji!
Ég hef verið afar hugsi yfir þeirri leið sem Seðlabanki Íslands er á hvað varðar gríðarlegar vaxtahækkanir á liðnum misserum. Ég er hugsi yfir röksemdarfærslum sumra sem segja að þegar Seðlabankinn sé að hækka stýrivextina þetta mikið sé hann að framfylgja sínu lögboðna hlutverki.
Ef við skoðum lög sem gilda um Seðlabanka Íslands þá kemur fram í 2. grein þeirra laga orðrétt:
„2. gr. Markmið og verkefni.
Seðlabanki Íslands skal stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi.“
Já, í þessari lagagrein sem gildir um Seðlabankann segir að hann skuli stuðla að stöðugu verðlagi. Ok, stoppum hérna, er það að stuðla að stöðugu verðlagi að hækka stýrivextina um 362,5% á 20 mánaða tímabili?
Er það að stuðla að verðstöðugleika að fjölskylda sem er með 40 milljóna óverðtryggt húsnæðislán hafi þurft að taka á sig aukna vaxtabyrði sem nemur 218 þúsundum á 20 mánaða tímabili? Vaxtabyrði sem hefur farið úr 140 þúsundum í 358 þúsund á þessu umrædda tímabili.
Er það að stuðla að verðstöðugleika að leggja 105 milljarða á atvinnulífið í aukinn fjármagnskostnað á 12 mánaða tímabili eins og Samtök atvinnulífsins hafa bent á. Aukinn fjármagnskostnað sem lendir af fullum þunga á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem varpa þessum aukna fjármagnskostnaði út í verðlagið.
Eru stýrivaxtahækkanir Seðlabankans að stuðla að verðstöðugleika með því að leggja nokkra milljarða aukinn fjármagnskostnað á bændur?
Hvernig má það vera að það sé neytendum, launafólki, bændum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum til hagsbóta að hækka hér stýrivexti um 362,5% á 20 mánaða tímabili?
Er það til hagsbóta fyrir heimili þessa lands að horfa upp á vaxtabyrði stökkbreytast á nokkrum mánuðum?
Ef við skoðum venjulega vísitölufjölskyldu sem er fyrir utan húsnæðiskostnað með útgjöld upp á um 500 þúsund á mánuði þá er verðbólgan að hækka mánaðarlegar greiðslur þeirra um 3.300 kr. á mánuði eða 40 þúsund á ári. Rétt er að geta þess að hér erum umtalsverða einföldun að ræða.
En ef þessi vísitölufjölskylda er með 40 milljóna óverðtryggt húsnæðislán á breytilegum vöxtum þá hefur vaxtabyrðin hækkað um 218 þúsund á mánuði eða 2,6 milljónir á ársgrundvelli.
Hversu galið er þetta? Kallast þetta að stuðla að verðstöðugleika að ná niður verðbólgu sem kostar þessa vísitölufjölskyldu 3.300 krónur á mánuði með því að leggja á auka vaxtabyrði sem nemur 218 þúsundum á mánuði.
Hvar er þessi hagfræði kennd?
Eða er seinni hlutinn í umræddri lagagrein sem gildir um Seðlabankann kannski aðalmálið en þar segir orðrétt: „fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi.“
Gengur þetta allt út á að tryggja fjármálastöðugleika fjármálakerfisins, skítt með launafólk, heimilin, bændur og lítil og meðalstór fyrirtæki og er von að maður spyrji!