Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hreif fyrrverandi seðlabankastjórann, Davíð Oddsson, þegar Ásgeir hnýtti í verkalýðsforystuna. Það kunni Davíð að meta. Davíð hefur átt bágt með að samþykkja eða kinka kolli yfir störfum þess fólks sem hefur valist í þau embætti sem Davíð gegndi fyrr á lífsleiðinni. Og þau eru mörg.
En hvað sagði Ásgeir sem hreif Davíð svo mikið? Davíð skrifar í Staksteina dagsins: „Um leið benti hann á að verkalýðsfélögin virtust ekki taka „að öllu leyti ábyrgð á ástandinu og því mikla atvinnuleysi sem nú hefur skapast“.“
Og Davíð bætir við: „Þetta er hárrétt ábending. Í það minnsta einstaka verkalýðsforingjar, sem gjarnan tala í hástemmdum yfirlýsingum úr fortíðinni, hafa látið eins og kröfur og baráttuaðferðir eigi ekkert að breytast þó að hagkerfið gangi nú í gegnum einn allra versta samdrátt síðustu aldar. Slíkar baráttuaðferðir gagnast engum.“
Þarna skellti Davíð sér út á svellið með eigið orðspor í fanginu. „…, sem gjarnan tala í hástemmdum yfirlýsingum úr fortíðinni…“ skrifar Davíð, hinn mesti maður fortíðarinnar.