Greinar

Sé ráðist að einum, er ráðist að okkur öllum

By Ritstjórn

October 10, 2020

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Nýr kafli er að hefjast í baráttunni gegn smálánafyrirtækjunum. Nýjasta útspil þeirra gefur tilefni til að ganga enn lengra og af enn meiri krafti en áður til að stöðva þessa starfsemi og fletta ofan af raunverulegum eigendum sem fela sig eins og aumingjar á bakvið óljóst eignarhald og „erlenda“ starfsemi.

Það er þjóðþrifaverk að upplýsa hverjir eru raunverulega á bakvið þessa starfsemi og hvaða viðskipti þeir stunda í íslensku samfélagi. Og það munum við gera.

eCommerce 2020 hefur nú stefnt Neytendasamtökunum og Breka Karlssyni formanni, og fara fram á að ummæli í tölvupósti verði dæmd dauð og ómerk sem og skaðabætur. Með stefnunni er félagið þannig að gera opinber þau ummæli sem send voru í einkapósti, sem gengur gegn markmiði stefnunnar. MAGNA lögmannsstofa tekur til varna fyrir Breka og Neytendasamtökin.

Athygli vekur að íslenskir lögmenn eCommerce hafi fengið þau fyrirmæli frá félaginu að þeir megi ekki taka á móti stefnu frá íslenskum neytanda. Er þetta enn ein leiðin til þess að leggja stein í götu neytenda, þar sem alvanalegt er að lögmenn taka á móti stefnum fyrir hönd umbjóðenda sinna.

Þar sem eCommerce neitar slíku þarf neytandinn nú að láta þýða stefnuna yfir á dönsku og birta hana í Danmörku á starfsstöðvum félagsins þar sem fyrir liggur að engin starfsemi er.

Alþýðusamband Íslands, VR og Efling hafa lýst því yfir að þau munu styðja Neytendasamtökin með ráð og dáð.

Það er ljóst að baráttan við smálánafyrirtækin er að bera árangur. Viðbrögðin staðfesta að við erum á réttri leið og full ástæða sé til að skerpa enn frekar á baráttunni gegn þessum fyrirtækjum og öllum sem þeim tengjast. Verkalýðshreyfingin mun styðja Neytendasamtökin í málarekstrinum, bæði í orði og á borði.

Sé ráðist að einum, er ráðist að okkur öllum.

Ef þú hefur upplýsingar um raunverulega eigendur eCommerce hafðu þá endilega samband við mig eða Neytendasamtökin.