„Er eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur? Eða líður ykkur best í faðmi þeirra sem fyrirlíta gömlu grunnstefnuna ykkar og þeirra sem segjast „bíða átekta“?“
Þannig endar ný Moggagrein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Sigmundur Davíð nánast skorar á Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að losa sig við Vinstri græn og taka við Miðflokknum í þeirra stað í ríkisstjórnina.
Aðeins fyrr í greinin stendur þetta: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi leitt mestu útgjaldaaukningu ríkissjóðs frá landnámi, skattar og gjöld hafa hækkað, verðbólga (og fyrir vikið vextir) hefur snarhækkað, útlendingamál eru í tómu tjóni (sjá magnaða grein Sigríðar Á. Andersen um það), Nýja Framsókn hefur fengið að leika lausum hala og hver einasta dellukenning VG hefur verið rekin áfram af hörku af hálfu Sjálfstæðisflokksins.“
SDG gleður eflaust ekki fyrrum félaga sína í Framsókn þegar hann nefnir Framsóknarflokkinn sem „Nýju Framsókn“.
Grein formanns Miðflokksins er löng. Hér er aðeins agnarögn af greininni.