- Advertisement -

SDG: Viðreisn hótaði stjórnarslitum

- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir Viðreisn og Sjálfstæðisflokk hafa samið, annars vegar um Landsrétt og hins vegar um jafnlaunavottun.

Sigmundur Davíð: „Þetta var þó ástæðulaus harka í garð gömlu góðu íhaldsmannanna.“

„Á sama tíma þurfti Sjálfstæðisflokkurinn aðstoð við að staðfesta skipan Landsréttar. Mestu prinsippmenn þar á bæ voru því fóðraðir á krít og sagt að styðja vottunarmál Viðreisnar eða hafa verra af (kosningar).“

Þannig skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar einkum um jafnlaunavottunina.

„Frumvarpið átti að vera helsta skrautfjöður Viðreisnar, flokks sem átt hefur heldur erfitt uppdráttar eftir að hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og gaf um leið eftir öll málin sem skömmu áður höfðu verið tíunduð sem ástæður þess að flokkurinn þyrfti að kljúfa sig frá Sjálfstæðisflokknum,“ skrifar hann.

Hann heldur áfram: „Þótt illa gengi með málið var því ekki um annað að ræða, að mati Viðreisnar, en að klára það á einn eða annan hátt. Á sama tíma þurfti Sjálfstæðisflokkurinn aðstoð við að staðfesta skipan Landsréttar. Mestu prinsippmenn þar á bæ voru því fóðraðir á krít og sagt að styðja vottunarmál Viðreisnar eða hafa verra af (kosningar). Þetta var þó ástæðulaus harka í garð gömlu góðu íhaldsmannanna því atkvæði þeirra reyndust óþörf við að koma frumvarpinu í gegn. Ljóst var orðið að vinstri-kerfisflokkarnir myndu stökkva á málið enda gátu þeir ekki verið þekktir fyrir að vera á móti máli sem héti svo góðu nafni.“

Sigmundur Davíð skýtur föstum skotum að vinstri flokkunum: „Á tímum ímyndarstjórnmála skipta nöfn miklu meira máli en innihaldið og þegar tekst að setja eitt orð saman úr orðunum jafnlaun og vottun þurfa nútíma vinstrimenn ekki að heyra meira áður en þeir segja BINGÓ!“

Hér má lesa alla greinina.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: