SDG: Það vantar fleiri ferðamenn
- Sigmundur Davíð er fullkomlega andsnúinn hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Norðausturkjördæmis og fyrrverandi forsætisráðherra, er andvígur hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Sem hann segir að muni valda miklum skaða. Sigmundur Davíð skrifar grein í Morgunblaðið í dag, þar sem þetta kemur fram.
„Í Norðausturkjördæmi leita menn allra leiða til að fá fleiri ferðamenn á Norður- og Austurland, alls ekki færri. Á því byggist rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna sem og atvinna og lífsviðurværi þeirra sem þar starfa. Sömu sögu er að segja víðar af landinu,“ skrifar hann.
Ekki sama staða
Sigmundur Davíð víkur að því hversu gæðunum er misskipt. Meðan álag og erfðileikar, vegna fjölda ferðamanna, er mikið á suðvesturhorninu, sé svo alls ekki um allt land, ekki síst á Norðurlandi og Austurlandi.
„Á þessu virðist vera lítill skilningur hjá stjórnvöldum, meðal annars hjá fjármálaráðherra og þingmanni kjördæmisins. Reglulega er minnt á mikilvægi þess að ferðamenn dreifist betur um landið. Allir hafa hag af því að dreifa álaginu og uppbyggingunni betur og nýta auðlindina sem í landinu liggur. Áform ríkisstjórnarinnar um að stórhækka skatta á ferðaþjónustu ganga hins vegar þvert á þessi markmið.“
Skákar í skjóli Bjarna
Sigmundur Davíð segir það vekja sér ugg í brjósti að heyra forsætisráðherrann lýsa yfir í viðtali að það síðasta sem hann hafi áhyggjur af sé samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu. „Fjármálaráðherrann skákar í þessu skjóli og virðist líta á greinina sem ótæmandi gullkistu sem hægt sé að ausa úr til að fylla í götin á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ skrifar Sigmundur Davíð.
Hann er gagnrýnin á Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, sem Sigmundur Davíð minnir á, að er þingmaður Norðausturkjördæmis.
„Norður- og Austurland geta sannarlega tekið við miklu fleiri ferðamönnum en nú er og gert það vel. Tækifærin til uppbyggingar áningarstaða og afþreyingar eru óteljandi. Samkeppnin við suðvesturhorn landsins og restina af heiminum er hins vegar erfið, nýtingarhlutföll lægri en þau þyrftu að vera og framlegðin of lítil, minni en svo að menn ráði við skyndilega tvöföldun virð- isaukaskatts og rúmlega það. Á sama tíma er greinin að takast á við verulega styrkingu krónunnar.“
–sme