Stjórnmál Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag, þar sem rætt var um skipulagsmál í miðborginni.
Forsætisráðherra hefur áhyggjur af þróuninni og sagði miðborg höfuðborgar vera þjóðareign.
Sömu einkenni og fyrir hrun
„Þeir sem ráðast í slíkar framkvæmdir eru fyrst og fremst að hugsa um að hámarka ávinninginn af fjárfestingunni, fá sem mest fyrir fjárfestinguna og oft á tíðum, því miður einsog, skipulagsmálum hefur verið háttað hér í borg og víðar, þá þýðir það að kominn er sterkur hvati til að huga bara að fermetrafjöldanum frekar heldur en hönnuninni,“ sagði Sigmundur Davíð og fyrirhugað Hafnartorg og byggingar þar.
„Það er mjög hættuleg þróun, þessi bólumyndun í fasteignamálum miðborgarinnar. Þetta sást gerast í aðdraganda fjármálahrunsins á sínum tíma og það var út af því sem ég kannski fór að blanda mér í umræðuna um þau mál. Sem leiddi mig síðan inn í stjórnmálin. Nú finnst mér þetta vera að gerast aftur. Ég sé nákvæmlega sömu einkennin. Þar sem menn þrýsta á að fá að rífa þetta litla og byggja eitthvað stærra. Svo eru þær framtíðarhugmyndir seldar einhverjum öðrum. Sem kríar út enn fleiri fermetra og svo koll af kolli. Svona er þetta allt blásið út. Það getur verið mjög erfitt fyrir stjórnvöld að standa gegn þessu. Oft er þrýstingurinn mikill. En þau verða að gera það. Þau verða að innleiða fyrirkomulag sem ýtir undir jákvæða þróun í stað þess sem er núna, fyrirkomulag sem ýtir undir neikvæða þróun. Þar sem menn hafa ekki hvata til að gera upp gömlu litlu húsin. Þeir hafa hvata til að láta þau grotna niður. Fá að rífa þau og fá að byggja eitthvað stærra eða selja byggingarreitinn,“ sagði ráðherrann í Reykjavík síðdegis í dag.
Símasalan smáaurar í samanburði
„Í þessum málaflokki er mikil hætta á því að fólki sé mismunað. Nú er mikið rætt um Símasöluna, þar sem tilteknir aðilar fengu tækifæri til að kaupa hlutabréf í Símanum á ákveðnu verði sem svo hafa hækkað. Það eru kannski smáaurar í samanburði við það sem stjórnmálamenn eru að úthluta hér í formi fermetra í formi byggingaréttar. Með því að fá fleiri fermetrum úthlutað er hægt að auka verðmæti lóða um hundruð milljóna og jafnvel milljarða. Þetta eru ákvarðanir sem eru teknar af stjórnmálamönnum og embættismönnum. Þetta er afskaplega hættulegur hvati og getur leitt til öfugþróunar einsog við sjáum mörg dæmi um núna,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
“