ALÞINGI „Sú endurnýjun og uppbygging sem samstaða náðist um er í gangi akkúrat þessa dagana, enda hristist allt og skelfur á Landspítalanum, svo mikill er hamagangurinn við þá endurnýjun og uppbyggingu sem menn ákváðu að væri þó nauðsynlegt að ráðast í sem næsta skref, hvað sem liði framtíðarstaðsetningu spítalans.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag, þegar hann átti í orðastað við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar.
Viðbót við viðbót
„Hvað varðar stöðuna núna þá er alveg ljóst að það þarf að halda áfram að bæta í viðhald og viðbætur á Landspítalnum. Sú 1.250 milljóna króna viðbót sem háttvirtur þingmaður nefndi var hins vegar viðbót við viðbótina sem þessi ríkisstjórn er að setja í heilbrigðismál. Ég efast reyndar um að jafnstórt stökk hafi verið tekið í seinni tíð eins og milli áranna 2015 og 2016 í aukinni áherslu á heilbrigðismál. Mér sýnist það verða 19 milljarða króna aukning frá einu ári til annars.“
Tvöfalt á við búvörusamningana
„Til að setja það í samhengi við annað mál sem hefur verið háttvirtum þingmanni hugleikið þá er þetta helmingi meira, bara viðbótin í heilbrigðismálin, en kostnaður við búvörusamninga. Bara viðbótin frá einu ári til annars í heilbrigðismál er helmingi meira en allur kostnaður við búvörusamninga það árið. Það hlýtur að undirstrika forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sem hefur verið að bæta verulega í heilbrigðismál; hún ætlar að gera það áfram. En við gerum okkur grein fyrir því að það tekur tíma að vinna upp þann gríðarlega niðurskurð sem heilbrigðismálin máttu þola á síðasta kjörtímabili. Voru það ekki 30 milljarðar sem heildarniðurskurður til heilbrigðismála nam á síðasta kjörtímabili?“