- Advertisement -

Aukin samneysla, aukin opinber útgjöld

STJÓRNMÁL Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lét til sín taka á Viðskiptaþingi í dag.

Hann talaði meðal annars um stöðu stjórnmálanna og ekki síst um uppgang Pírata, sem Sigmundur Davíð virðist ekki vera par hrifinn af.

„Aukin verðmætasköpun er forsenda aukinnar velferðar og fyrir skuldsett ríki, en það eru flest ríki heims, er aukin verðmætasköpun forsenda aukinna opinberra útgjalda, samneyslu ef menn vilja nota jákvæðara orð sem þýðir þó í raun það sama. Þeir sem vilja auka samneysluna vilja auka opinber útgjöld,“ sagði ráðherrann.

„Til að standa undir útgjöldum þarf tekjur og til að standa undir auknum tekjum þarf hvað? …aukna verðmætasköpun. Þetta virðist einfalt og ætti eiginlega að segja sig sjálft, en það gerir það ekki og allra síst nú um stundir. Það bendir nefnilega ýmislegt til þess að við lifum á áhugaverðum tímum.“

Þeim á jöðrunum vex fiskur um hrygg

„Eftir að brotalamir alþjóðlega fjármálakerfisins komu í ljós, sem og margra ríkja eða ríkjasambanda á sama tíma og aðgangur að upplýsingum, réttum og röngum, jókst til mikilla muna hefur orðið áhugaverð þróun í stjórnmálum víða.

Stjórnmálahreyfingum, stjórnmálamönnum og hugmyndafræði af jöðrunum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þetta er kallað ýmsum nöfnum, sósíalistar, kommúnistar, þjóðernissinnar og anarkistar. Allir segjast þeir boða eitthvað nýtt í andstöðu við kerfið, gamla spillta kerfið. En þegar betur er að gáð er þetta allt endurvinnsla gamalla hugmynda sem hafa verið margreyndar og alltaf endað illa.“

Einfaldar og vanhugsaðar lausnir

„Annað sem einkennir þessar hugmyndir, stjórnmálamenn og -öfl sem nú njóta aukins stuðnings er að þau boða einfaldar lausnir, einfaldar en vanhugsaðar. Einfaldar lausnir geta verið bestar, jafnvel nauðsynlegar, þar sem þær eiga við.

Önnur viðfangsefni kalla á flóknari lausnir en lausnir verða alltaf að vera úthugsaðar og rökréttar. Og sem slíkar verða þær að þola rökræðu.

Margt af því sem nú fær mesta athygli og minnsta gagnrýni gerir það ekki  og er, því í raun ekki lausnir heldur frekar markmið án lausna. Hvort sem litið er til leiðandi forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum, eða nýrra vinsælla flokka á meginlandi Evrópu, alls staðar eru boðuð aukin útgjöld með auknum skuldum án tillits til verðmætasköpunar.“

Við getum líka litið okkur nær

„Það þarf ekki að útskýra hvernig dæmið á að ganga upp, það nægir að hafa boðskapinn nógu einfaldan og setja hann fram í nógu jákvæðum frösum. Og víða er það svo að því minna innihald sem er í boðskapnum þeim mun minni er gagnrýnin á hann.

Við getum líka litið okkur nær.  Hér kynnir stjórnmálahreyfing sem nýtur mikils stuðnings tillögu um að ríkið greiði öllum landsmönnum mánaðarlega laun, ja, a.m.k. 300.000 krónur skilst mér, fyrir það eitt að vera Íslendingur. -Óháð stöðu og öðrum tekjum. Ég hef ekki orðið var við að neinn hafi haft fyrir því að reikna út að það myndi fela í sér útgjöld upp á um 100 milljarða á mánuði.

Það er álíka mikið og árlegur kostnaður við almannatryggingakerfið, lífeyrinn og örorkubæturnar sem hafa verið að hækka þótt margir telji ekki nóg að gert. Við þær aðstæður kemur fram tillaga um að ríkið greiði öllum landsmönnum föst mánaðarlaun, líka hæstlaunaða fólki landsins.“

Kröfurnar um aukin útgjöld án tekna eru ótal margar

„Ég ætla að láta vera að velta því fyrir mér hvaða áhrif þetta hefði á framleiðni í samfélaginu eða verðlag eða þeirri augljósu staðreynd að þetta kæmi verst út fyrir þá sem verst stóðu fyrir.

Ég læt nægja að benda á að árlegur kostnaður næmi um 1.200 milljörðum króna á ári eða hátt í tvöföldum tekjum ríkisins og þá á eftir að reka heilbrigðiskerfið, skólana og allt hitt. Kröfurnar um aukin útgjöld án tekna eru ótal margar.

Þegar menn eru krafðir svara er helst bent á að hækka megi skatta. Það eru nefnilega furðumargir sem halda að skattlagning búi til verðmæti og taka því jafnvel illa þegar minnt er á nauðsynlegt samhengi verðmætasköpunar og velferðar.“

Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: