„Ég beið spennt eftir því að forseti teldi upp að borist hefði svar við fyrirspurnum mínum um fjölgun starfsfólks og embættismanna í ráðuneytunum frá því 28. nóvember, en ég vek athygli á því að ráðherrar eiga að skila svörum að jafnaði eigi síðar en tveimur vikum eftir að fyrirspurn er lögð fram. Ég held að þær séu orðnar 17 eða fleiri, vikurnar sem eru síðan ég lagði fram þessar sáraeinföldu spurningar um fjölgun starfsfólks og embættismanna í ráðuneytunum á þessu kjörtímabili og því síðasta, að gefnu tilefni,“ sagði Helga Vala Helgadóttir á Alþingi í gær.
„Nú þegar við fáum að bíða nokkuð eftir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, enda ástandið í þjóðfélaginu grafalvarlegt og þarf að skoða hvern krók og kima hvar hægt er að draga mögulega saman í ríkisútgjöldum, þá er auðvitað hluti af þeim spurningum hvort báknið sjálft, Stjórnarráð, hafi blásið of mikið út með fjölgun ráðherra, fjölgun ráðuneyta og fjölgun starfsfólks í ráðuneytum, mögulega að óþörfu.“