Sauðfjárbændur eru ekki vandamálið
„Íslendingar hafa aldrei kunnað að selja nokkurn skapaðan hlut. Það er kominn tími til þess nú. Og markaðsátak í lambakjöti sem er flutt til Kína og Ameríku — það væri betur komið hér í Alþingishúsinu.“
„Í fyrra lækkuðu sláturleyfishafar verð til sauðfjárbænda um 29%. Ef ég man rétt 10% þar á undan. Það má segja að í fyrra hafi verið þegjandi samkomulag, eða þegjandi samráð, með sláturleyfishöfum um þá lækkun til bænda. En lambalæri kostar það sama út úr búð í dag og það gerði í fyrra. Því spyr ég: Hvert fóru þessi 29%? Fóru þau til sláturleyfishafa? Runnu þau til kaupmanna? Eða skiptu þessir tveir hópar á milli sín þessum 29%?“
Þannig talaði Þorsteinn Sæmundsson, í umræðu um stöðu sauðfjárbænda, á Alþingi í gær.
Bændurnir með svarta pétur
„Í sjálfu sér var þessi aðgerð gerð út af stórfelldum birgðavanda, sögðu sláturleyfishafar. Hann var 1.100 tonn sá stórkostlegi birgðavandi. Í ár, samkvæmt svari hæstv. ráðherra til mín í morgun, eru það 700 tonn, rétt rúm. En hvað gerðu menn þegar þessi staða varð ljós í fyrra? Var farið í markaðsátak? Nei, það var ekki gert. Enn einu sinni voru bændur látnir sitja uppi með svarta pétur.“
Markaðsmálin sem eru vandamálið
„Sauðfjárbændur eru ekki vandamálið. Það eru afurðastöðvarnar, það eru markaðsmálin sem eru vandamálið. Við hrósum okkur af því að selja 200 tonn til Ameríku á hverju ári til verslunarkeðju sem er með 12.000 verslanir, þetta eru 16 kíló á kjaft, það er svona einn skrokkur. Fyrir þetta borgum við stórfé. Þetta er fásinna. Við eigum náttúrlega að selja þetta kjöt í veitingahús. Það eru 30.000 veitingahús, ef ég man rétt, í New York einni saman.“
Af hverju förum við ekki í alvörumarkaðsátak?
„Við erum að baslast við að selja einhver 200 tonn. Íslendingar hafa aldrei kunnað að selja nokkurn skapaðan hlut. Það er kominn tími til þess nú. Og markaðsátak í lambakjöti sem er flutt til Kína og Ameríku — það væri betur komið hér í Alþingishúsinu. Hér í mötuneytinu er mjög sjaldan lambakjöt og ekki heldur í stjórnarráðsmötuneytinu. Hvað þurfum við að vera að senda menn til Kína og Ameríku til að selja kjöt ef við getum selt það í mötuneytin hér heima. Heimamarkaðurinn er bestur. Af hverju förum við ekki í alvörumarkaðsátak? Af hverju látum við bændur sitja uppi með það að þeir séu annars eða þriðja flokks þegnar? Bændur eru ekki vandamálið. Afurðastöðvarnar og markaðsmálin eru vandamálið,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson.