- Advertisement -

Sanngjarnar kröfur verkafólks – munu ná fram að ganga

Verkafólk ætlar ekki að láta atvinnurekendur berja sig niður.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Sá mikli ágreiningur sem er í kjaramálum á almennum vinnumarkaði í dag lofar ekki góðu um skjóta lausn deilunnar. Mjög mikið bar á milli í deilu SA og 4ra verkalýðsfélaga hjá ríkissáttasemjara. Tilboð SA um lausn deilunnar var svo langt frá hugmyndum verkalýðsfélaganna, að engin leið var að leysa deiluna með því tilboði nema komið hefði til veruleg skattalækkun ríkisstjórnar t.d. skattfrelsi lægstu tekna en það var ekki í boði.

Eftir að upp úr samningaviðræðum slitnaði og verkalýðsfélögin fóru að undirbúa verkfall tók ekki betra við hjá SA, þar eð þá fóru samtök atvinnurekenda að kæra verkfallsboðun verkafólks. Má það undarlegt heita, þar eð verkalýðsfélögin stíga öll skref í boðun verkfalls og undirbúningi í samráði við lögfræðinga ASÍ. Þar er Magnús Norðdahl lögfræðingur,sem þekkir verkfallsmálin betur en nokkur annar í dag og betur en þeir, sem hættir eru störfum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

SA vill að heimildarákvæði verði látið gilda fremur en almennt ákvæði en jafnvel leikmenn vita að svo er ekki. Það eina, sem SA getur hugsanlega grætt á kæru er að tefja málin og skapa meiri illindi milli deiluaðila.


Verkafólk ætlar ekki að láta atvinnurekendur berja sig niður ekki einu sinni þó SA hafi haft stuðning stjórnar og Seðlabanka í baráttunni gegn verkafólki.

Lágmarkskaup verkafólks er svo lágt, að engin leið er að framfleyta sér af því. Lágmarkstekjurnar eru 300 þús. á mánuði fyrir skatt, eða 235 þúsund kr eftir skatt. Menn líti á þessar tölur.

Er þetta boðlegt eftir að búið er að moka undir yfirstéttina með óhóflegum launum og gróða. Menn beri saman við lágmarkslaun verkafólks laun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna, þingmenn með 1,1 milljón kr á mánuði og miklar aukasporslur, ráðherrar með 1,8-2 millj kr. á mánuði auk mikilla hlunninda og æðstu embættismenn með 1,2-1,6 millj á mánuði eftir allt að 48% hækkun og 18 mánuði til baka! Þannig má áfram telja. Yfirstéttin rakar til sín peningum en á ekki nógu sterk orð vandlætingar yfir því að verkafólk ætli að dirfast að vilja fá mannsæmandi laun til þess að brauðfæða sig og sína.

Kröfur verkafólks eru sanngjarnar og munu ná fram að ganga.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: