Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalistaflokki, lagði til á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur að hætt yrði við hótelbyggingu að Skúlagötu 26. Hún vildi að þess í stað yrðu byggðar íbúðir þar.
Meirihlutinn hafnaði þessari hugmynd Sönnu. Áformað er að byggja þar sautján hæða hótel með nærri tvö hundruð herbergjum. Húsið verður alls um þrettán þúsund fermetrar.
Sanna bókaði:
„Þrátt fyrir að fyrirhuguð sé húsnæðisuppbygging á þessu svæði er mikilvægt að stuðla að enn frekari húsnæðisuppbyggingu í borginni í stað margra hæða hótelbyggingar. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins telur það að greiða leiðina fyrir byggingu svo stórs hótels í hjarta Reykjavíkur, í miðri húsnæðiskreppu, ekki vera ákjósanlegt, þegar áhersla ætti að vera fyrst og fremst á íbúðauppbyggingu fyrir almenning.“
Meirihlutinn rökstuddi afsvar sitt með því að verið sé að byggja margar íbúðir í næsta nágrenni.
„Um þessar mundir er verið að byggja nokkur hundruð nýjar íbúðir af alls konar stærðum og gerðum við Hverfisgötu. Hótelið sem nú verður byggt rís á skilgreindu atvinnusvæði við Skúlagötu við hlið Kex-hostels,“ sagði auk annars í bókun meirihlutans.