Sanna vill frysta laun borgarfulltrúa
„29 milljóna króna sparnaður fæst við að frysta laun borgarfulltrúa í eitt ár,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalistaflokki.
„Ef að laun borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa verða ekki hækkuð á næsta ári, þá er sparnaðurinn fyrir borgina áætlaður 29 milljónir. Sósíalistar munu leggja þetta til við gerð fjárhagsáætlunar. Laun taka mið af þróun launavísitölu og uppfærast í janúar og júlí ár hvert. Þegar efnahagsstaðan er eins og hún er og þegar laun okkar eru miklu hærri en laun annarra sem starfa hjá borginni, þá tel ég þetta eðlilegt. Frysta í eitt ár og nota 29 milljónirnar í eitthvað betra,“ segir Sanna.
Grunnlaun borgarfulltrúa eru rétt við 950 þúsund á mánuði.