Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar:
Í dag er borgarstjórnarfundur, á dagskránni er umdeild tillaga meirihlutans um skóla- og frístundastarf í Laugardal en miklar umræður hafa átt sér stað um framtíðaruppbygginu skólastarfs í því hverfi. Vinstri grænir leggja til rökræðukönnun um þetta framtíðarfyrirkomulag. Sjálfstæðisflokkurinn leggur til matvöruverslun á Bauhaus- reit. Sósíalistar bera fram tillögu um endurskoðun fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði einstaklinga með það að markmiði að létta greiðslubyrði af þeim sem eiga lítið í sinni íbúð, t.d. hjá þeim sem hafa nýlega keypt sína íbúð, því gjöldin eða skattarnir leggjast jafnt á skuldir sem eignir.
Fasteignagjöld eru 0,18% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Gjöldin leggjast á verðmæti eigna án tillits til skuldastöðu, svo fólk sem á 10% í íbúðinni sinni greiðir það sama og þau sem eiga sína íbúð skuldlaust. Sósíalistar leggja til að þetta verði endurskoðað, til að það verði hægt þarf að efna til samtals við löggjafann. Þessi tillaga snýr að því að skattleggja út frá eignastöðu og má lesa nánar um hér: https://reykjavik.is/…/4_1_tillaga_j_endurskodun…
Flokkur fólksins vill aukna áherslu á umhverfismál í skóla- og frístundastarfi og þá er Sjálfstæðisflokkurinn með annað mál á dagskrá sem er umræða um bílastæðamál. Það er mjög margt hægt að tala um í því samhengi, t.a.m. aðgengi þannig að bílastæði fyrir hreyfihamlaða séu tryggð á sem flestum stöðum og þá er einnig hægt að ræða um hækkandi gjaldtöku sem á sér stað þegar ekki er búið að tryggja góðar almenningssamgöngur.
Við munum einnig greiða atkvæði um ýmis mál sem koma úr ráðum og nefndum borgarinnar, eins og tillaga um að framlengja samning við löginnheimtufyrirtæki. Ef að borgarfulltrúi greiðir atkvæði gegn einhverju í borgarráði, þá fer það til afgreiðslu borgarstjórnar eins og á við um þennan samning við innheimtufyrirtæki. Sósíalistum finnst ekki að fyrirtæki eigi að hagnast á borgarbúum sem skulda og geta ekki greitt reikninga sína vegna fátæktar.
Það er hægt að fylgjast með fundinum hér: https://reykjavik.is/borgarstjorn-i-beinni svo er líka hægt að mæta í Ráðhúsið og fylgjast með fundinum en hann byrjar klukkan 12.