Sanna Magdalena Mörtudóttir:
Ég viðurkenni að það getur verið erfitt að starfa innan veggja Ráðhússins þar sem viðurkenning á vandanum er ekki til staðar.
Kæru félagar og Reykvíkingar, ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í borgarstjórn Reykjavíkur. Vorið 2018 tók ég að mér verkefni. Því er ekki lokið. Óréttlætið, fátæktin og húsnæðisskorturinn er enn til staðar. Stéttaskiptingin blasir við okkur og fær að viðgangast óáreitt af yfirvöldum. Laun forstjóra sem starfar í fyrirtæki í eigu borgarinnar hækkar um margar milljónir á einu ári, á meðan að fátækustu borgarbúum er gert að reiða sig á matarúthlutanir frá góðgerðasamtökum. Á meðan að stjórnmálafólk fær reglulegar launahækkanir áreynslulaust, þurfa láglaunahópar að leggja niður störf til að fá viðurkenningu á starfsframlagi sínu. Starfsframlagi sem skiptir öllu máli við að halda borginni gangandi.
Gjaldtaka fer fram á ótrúlegustu stöðum þar sem fjármagnseigendur eru undanþegnir því að greiða til samfélagsins. Reykjavíkurborg rukkar börn fyrir þjónustu sem á að vera gjaldfrjáls. Ef börn koma frá efnalitlum heimilum þar sem fjölskyldur hafa ekki burði til að greiða reikninga, er innheimtufyrirtækjum sigað á fjölskyldurnar. Börn læra snemma að full þátttaka innan samfélagsins stendur þeim ekki til boða.
Reykjavík á að vera fyrir okkur öll en hún er það ekki. Húsnæði á að standa okkur öllum til boða en sú er ekki raunin. Ég neita að búa í samfélagi þar sem brotið er á mannréttindum fólks og því neitað um rétt til að búa við öruggt húsaskjól og öruggar mannsæmandi aðstæður. Þess vegna held ég áfram í þeirri sósíalískri baráttu sem ég er í. Ég viðurkenni að það getur verið erfitt að starfa innan veggja Ráðhússins þar sem viðurkenning á vandanum er ekki til staðar. Í þau skipti sem reiðin hefur náð mér hef ég bitið fast á jaxlinn og haldið tárunum inni í augunum svo þau renni ekki niður á kinn.
Borgarbúar eiga ekki að þurfa að búa við óöryggi og þann skaða sem hlýst af því að ekki var gripið inn í aðstæður þar sem hægt var að grípa inn í. Við verðum að byggja upp gott samfélag, þar sem grunnþörfum allra er mætt. Til þess þurfum við að hlusta á raddir og reynslu þeirra sem best þekkja til hverju sinni og ég er þakklát fyrir öll samtölin sem ég hef átt við borgarbúa, starfsfólk og allt það fólk sem veit hvað þarf að bæta innan borgarinnar.
Við verðum að byggja góðan grunn, til að tryggja að hér getum við öll átt gott líf til að vaxa og dafna.
Baráttukveðja, Sanna sósíalisti.