Sanna: Ekki gleyma strætó
„Á meðan við bíðum eftir framtíðarlausnum, þurfum við einnig að bæta þær lausnir sem nú eru til staðar,“ bókaði Sanna Magdalena Mörtudóttir Sósíalistaflokki, í borgarstjórn.
„Talsverður tími er í borgarlínu en nauðsynlegt er að bæta almeningssamgöngur nú fyrir þau sem reiða sig á þær í dag. Það að setja fram hugmyndir um bættar almenningssamgöngur í framtíðinni má ekki leiða til þess að dregið verði úr eflingu núverandi almenningssamgangna. Varðandi alla slíka uppbyggingu er mikilvægt að útfærsla verði á forsendum þeirra sem þekkja best til; notenda þjónustunnar.“
„Varðandi fyrstu áfanga borgarlínunnar, þá minnir fulltrúi sósíalista á viðaukatillögu sósíalista sem lögð var fram í borgarstjórn 15. október 2019 um fyrirvara við samþykkt samkomulags ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033. Þar vildu sósíalistar m.a. leggja meira í borgarlínu og strætó, þ.m.t. að gert yrði ráð fyrir fleiri áföngum borgarlínu. Sú tillaga hlaut ekki brautargengi. Sósíalistar leggja áherslu á að almenningssamgöngur verði byggðar upp samkvæmt væntingum þeirra sem nota þær, hratt og örugglega,“ bókaði Sanna Magdalena.